Davíð Stefánsson sem verið hefur annar ritstjóra Fréttablaðsins mun nú láta af starfi ritstjóra. Sunna Karen Sigurþórsdóttir, annar ritstjóra frettabladid.is og hringbraut.is lætur einnig af störfum.
Þetta kemur fram í frétt Fréttablaðsins í dag.
Davíð tók við starfi ritstjóra Fréttablaðsins síðasta sumar og Sunna Karen hefur starfað sem ritstjóri vefmiðla síðan í júní 2018.
Tveir nýir fréttastjórar á Fréttablaðið
Tveir fréttastjórar verða ráðnir á Fréttablaðið, þeir Garðar Örn Úlfarsson og Ari Brynjólfsson, að því er fram kemur í fréttinni. Þá segir að þeir hafi undanfarið verið í starfi á blaðinu og séu margreyndir í frétta- og blaðamennsku.
Kristjón Kormákur Guðjónsson, verður einn ritstjóri frettabladid.is og hringbraut.is. Ennfremur verður Jón Þórisson ritstjóri Fréttablaðsins og ábyrgðarmaður, jafnframt aðalritstjóri, samkvæmt Fréttablaðinu.
„Þá kemur Markaðurinn, fylgirit Fréttablaðsins um viðskipti, efnahagsmál og atvinnulíf, út í aukinni útgáfu í fyrsta sinn á morgun. Um er að ræða tuttugu síðna blað sem dreift verður ókeypis sérstaklega til forsvarsmanna fyrirtækja á dreifingarsvæði Fréttablaðsins. Ritstjóri Markaðarins er Hörður Ægisson, svo sem verið hefur,“ segir í fréttinni.
Forstjóri Torgs er Jóhanna Helga Viðarsdóttir.