Fimm þingmenn Framsóknarflokksins hafa lagt fram tillögu tilþingsályktunar um endurskoðun á lagaumhverfi svokallaðra smávirkjana. Lagt er til að Alþingi feli umhverfis- og auðlindaráðherra og atvinnu- og nýsköpunarráðherra að endurskoða lög og reglur um leyfisveitingar til uppsetningar smávirkjana með það að markmiði að einfalda umsóknarferli í tengslum við þær.
Fyrri umræða um tillöguna er á dagskrá þingfundar í dag.
Hugmyndir að smávirkjunum, eins og virkjanir með uppsett rafafl á bilinu 200 kW og 9,9 MW hafa verið kallaðar, þurfa ekki að fara til meðferðar verkefnisstjórnar rammaáætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða. Þær eru hins vegar tilkynningaskyldar til Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Sumar þessara virkjanahugmynda eru ávallt háðar umhverfismati en um aðrar tekur stofnunin ákvörðun um með tilliti umfangs, eðlis og staðsetningar.
Í greinargerð með tillögu þingmannanna segir að reynslan sýni að kröfur leyfisveiteinda hafi þróast í átt að fullu umhverfismati. „Ferlið við leyfisveitingar fyrir smávirkjanir er því kostnaðarsamt, þungt og tímafrekt og ekki í samræmi við framkvæmdir að sama umfangi í öðrum geirum, eins og t.d. í landbúnaði og ferðaþjónustu,“ segir í greinargerðinni.
Fram kemur að það geti tekið tvö til þrjú ár að fá leyfi til að byggja litla eða meðalstóra virkjun. Lánastofnanir veiti sjaldnast lán fyrr en fyrirhuguð virkjun er komin með öll tilskilin leyfi. Undirbúningskostnaður sé því oft mjög stór hindrun fyrir framkvæmdaaðilann. „Dæmi eru um að einstaklingar hafi lagt út í háan kostnað til að afla leyfa fyrir smávirkjanir áður en niðurstaða liggur fyrir um hvort leyfi fáist fyrir framkvæmdinni. Bændur sem vilja byggja litla virkjun heima á bænum þurfa því að uppfylla sömu skilyrði og um stórvirkjun væri að ræða með tilheyrandi kostnaði.“
Minnka útblástur efna sem hafa áhrif á hitastig jarðar
Að mati þingmannanna eru smávirkjanir umhverfisvænir orkugjafar þar sem þær stuðli „að minni útblæstri óæskilegra efna sem hafa áhrif á hitastig jarðar“.
Mannvirki og náttúrurask vegna smávirkjana eru að því er fram kemur í greinargerðinni oft að fullu afturkræfar framkvæmdir. Ekki sé verið að sökkva stórum landsvæðum undir lón eins og með stórvirkjunum. Þá tengist smávirkjanir raforkukerfinu um dreifiveitur landsins og styrki þannig þær flutningsleiðir og geti einnig styrkt raforkuframleiðslu í einstökum landshlutum við uppbyggingu smærri atvinnustarfsemi.
Halla Signý Kristjánsdóttir, fyrsti flutningsmaður tillögunnar, bendir á að horfa mætti til Noregs í þessu sambandi þar sem ein stofnun hafi umsjón með leyfisveitingum smávirkjana.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, sagði í viðtali við Kjarnann í janúar að rammaáætlun væri mikilvægt stjórntæki við að flokka virkjanakosti eftir ákveðnum forsendum en að hún væri ekki gallalaus. Benti hann sérstaklega á hið umtalaða 10 MW viðmið í því sambandi. Sagðist hann vilja endurskoða það. Stærð virkjunar segði langt frá því alla söguna um umhverfisáhrif hverrar framkvæmdar fyrir sig.
Virkjunum rétt undir 10 MW, sem þá þurfa ekki að fara í gegnum ferli rammaáætlunar, hefur fjölgað síðustu ár.
Guðmundur Ingi sagðist ekki sannfærður um að stærðarviðmið sé heppilegasta leiðin. „Einhver ein tala, um ákveðið mörg megawött, er það endilega rétti mælikvarðinn? Ég tel að það séu frekar áhrifin sjálf sem skipti mestu. Við þurfum að skoða það með opnum huga að finna betra fyrirkomulag.“