Í minnisblaði frá embætti skattrannsóknarstjóra sem sent var til fjármála- og efnahagsráðuneytisins 18. nóvember 2019 segir að tilefni fundar Bryndísar Kristjánsdóttur skattrannsóknarstjóra og sérfræðings frá embættinu með tveimur fulltrúum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Guðmundi Árnasyni ráðuneytisstjóra og Helgu Jónsdóttur, skrifstofustjóra á skrifstofu skattamála, sama dag hafi verið „fjölmiðlaumfjöllun fyrr í mánuðinum um meint refsiverð brot í starfsemi Samherja hf. á erlendri grundu og hugsanlega hérlendis.“
Þar segir enn fremur að Samherji sé eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki Evrópu, með starfsemi í allt að tíu löndum. „Skattrannsóknarstjóri ríkisins hefur haft gögn vegna sjávarútvegsfyrirtækisins Samherja hf. til skoðunar í nokkrar vikur.“
Það þýðir að embættið hafði fengið gögn tengd Samherja, og hafið skoðun sína á þeim, áður en þáttur Kveiks um málið var sýndur þriðjudagskvöldið 12. nóvember 2019.
Í minnisblaðinu segir að um sé að ræða gögn sem bárust embættinu frá namibískum yfirvöldum. „Við þá yfirferð sem og við skoðunar fjölmiðlaumfjöllunar um málefni félagsins undanfarna daga hafa komið fram ýmis atriði sem þarfnast ítarlegrar skoðunar af hálfu embættisins. Á næstu dögum á embættið von á frekari gögnum vegna málsins.“
Í minnisblaðinu, sem fjármála- og efnahagsráðuneytið neitaði upphaflega að afhenda fréttamanni hjá RÚV, var einnig að finna nánari upplýsingar um þennan anga, en úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi að ráðuneytinu hefði verið heimilt að fella þá efnisgrein út úr minnisblaðinu áður en það yrði afhent. Hún komst hins vegar að þeirri niðurstöðu með úrskurði 14. febrúar síðastliðinn að flest annað í minnisblaðinu ætti fullt erindi við almenning og lagði fyrir ráðuneytið að veita aðgang að þeim hlutum þess.
Hluti af minnisblaðinu fellt út
Samherjamálið hófst formlega í nóvember í fyrra þegar Kveikur, Stundin, Wikileaks og Al Jazeera birtu umfjöllun sína um viðskiptahætti Samherja í Namibíu og víðar þar sem fjallað var um meintar mútugreiðslur, peningaþvætti og skattasniðgöngu.
Skattrannsóknarstjóri segir í minnisblaðinu að í ljósi „mikilvægi málsins og umfangs þess“ telji það rétt að fara þess á leit við ráðuneytið að embættinu yrði „gert kleift að auka mannafla embættisins tímabundið til að geta sinnt þessu afmarkaða verkefni á sem skjótastan og farsælastan hátt.“
Þar nefnir skattrannsóknarstjóri þrjár leiðir sem væru færar í því efni. Þær leiðir voru felldar út úr minnisblaðinu áður en það var afhent, samkvæmt ákvörðun úrskurðarnefndar um upplýsingamál.
Þetta er ekki eina minnisblaðið sem sent var á þessum tíma. Sama dag, 18. nóvember, sendi embætti ríkisskattstjóra minnisblað til fjármála- og efnahagsráðuneytisins vegna vangaveltna um mögulegt samstarf milli embættisins og Skattrannsóknastjóra vegna Samherjamálsins. Þar eru ýmis sjónarmið reifuð um heppileika og mögulega framkvæmd slíks samstarfs.
Fengu á endanum 200 milljónir
Í minnisblaði sem Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari sendi til dómsmálaráðuneytisins í sömu viku kom fram að um hundrað mál biðu rannsóknar hjá embættinu og að þáverandi starfsmannafjöldi dygði ekki til að sinna öllum þeim rannsóknarverkefnum sem það þarf að takast á við að óbreyttu, hvað þá viðbótarmálum af stærra umfangi. Meiri fjármuni þyrfti til.
Ólafur Þór lagði til að starfsmönnum á rannsóknarsviði embættis hans yrði fjölgað um sex í byrjun árs 2020. Hann lagði auk þess til að starfsmönnum yrði mögulega fjölgað um tvo til viðbótar síðar á árinu ef verkefnastaða embættisins gefur tilefni til. Meðalkostnaður fyrir hvert starf sem við bætist væri áætlaður 15 milljónir króna og því myndi fyrsta aukningin kosta um 90 milljónir króna.
Í janúar var greint frá því að þær stofnanir sem tengjast eftirliti og vörnum gegn peningaþvætti, skattrannsóknum og skatteftirliti myndu fá 200 milljóna króna viðbótarframlag úr ríkissjóði á þessu ári.
Þetta var gert í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að grípa til alls sjö aðgerða til að auka traust á íslensku atvinnulífi, en aðgerðaráætlunin var samþykkt á ríkisstjórnarfundi 19. nóvember, nokkrum dögum eftir að opinberun Kveiks, Stundarinnar, Wikileaks og Al Jazeera á meintum mútugreiðslum, peningaþvætti og skattasniðgöngu Samherja í Namibíu og víðar var birt, og einum degi eftir að minnisblað skattrannsóknarstjóra var sent.