Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur komist að þeirri niðurstöðu að embætti Skattrannsóknarstjóra og Ríkisskattstjóra þurfi að afhenda fréttamanni minnisblöð sem embættin sendur til fjármála- og efnahagsráðuneytisins vegna rannsóknar á Samherjamálinu svokallaða.
Ráðuneytið hafði synjað beiðni umrædds fréttamanns, sem er ekki nefndur í úrskurði nefndarinnar, um aðgang að gögnunum að höfðu samráði við embættin tvö. Það var gert á þeim grundvelli að talið var að þau hefðu að geyma upplýsingar sem vörðuðu mikilvæga virka viðskiptahagsmuni lögaðila, upplýsingar um mögulega rannsókn sakamáls auk upplýsinga um fyrirhugaðar ráðstafanir sem mögulega skili ekki tilætluðum árangri séu þær á vitorði almennings.
Ráðuneytinu bar því að afhenda fréttamanninum, sem starfar hjá RÚV, gögnin að undaskyldum tilgreindum töluliðum í minnisblöðum beggja stofnana.
Samherjamálið hófst formlega í nóvember í fyrra þegar Kveikur, Stundin, Wikileaks og Al Jazeera birtu umfjöllun sína um viðskiptahætti Samherja í Namibíu og víðar þar sem fjallað var um meintar mútugreiðslur, peningaþvætti og skattasniðgöngu. Í umfjölluninni steig fram uppljóstrarinn Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi starfsmaður Samherja í Namibíu, og lýsti ætluðum brotum Samherja, sem hann sagði að væru framin með vitund og vilja forstjóra samstæðunnar, Þorsteins Más Baldvinssonar.
Samherji fól samstundis norskri lögmannsstofu, Wikborg Rein, að framkvæma rannsókn fyrir sig á ásökunum, sem fyrirtækið greiðir sjálft fyrir og heyrir beint undir stjórnina.
Auk rannsóknar Wikborg Rein á málum Samherja eru yfirvöld í Namibíu, Angóla, Íslandi og í Noregi einnig að rannsaka mál tengd Samherja og fjölmargir hafa verið ákærðir fyrir spillingu og önnur efnahagsbrot nú þegar í Namibíu vegna Samherjamálsins, meðal annars tveir fyrrverandi ráðherrar í ríkisstjórn landsins. Alls sitja tíu manns í fangelsi þar í landi vegna málsins. Engin niðurstaða liggur fyrir í rannsókn á málinu hérlendis enn sem komið er og samkvæmt upplýsingum Kjarnans hefur hún verið í fullum gangi undanfarna mánuði, meðal annars hjá skattayfirvöldum.