Útgerðarfyrirtækið Brim, sem skráð er á markað, hagnaðist um 4,7 milljarða króna í fyrra, og er gerð tillaga um að greiða 1,9 milljarða króna í arð til hluthafa vegna ársins í fyrra.
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, segir í tilkynningu til kauphallar að það hafi skipst á skin og skúrir í rekstrinum í fyrra, meðal annars vegna loðnubrests og brælu á miðum.
„Afkoman á síðasta ári var viðunandi. Eins og oft áður voru skin og skúrir. Engin loðna veiddist og á haustmánuðum voru miklar brælur en sumarið var gott í bolfiski og makríl. Þá var gott ár í útgerð frystitogara. Það má segja að árangurinn sé ágætur þegar horft er um öxl á þetta fyrsta heila rekstrarár frá því að nýir aðilar komu að rekstri félagsins," segir Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims og aðaleigandi félagsins, en hann tók við stjórnartaumunum árið 2018, eftir að hafa keypt þriðjungshlut í félaginu.
Heildareignir félagsins námu 700,7 milljónum evra árslok 2019, eða sem nemur um 97,4 milljörðum króna. Eigið fé nam 317,4 milljónum evra, eða sem nemur um 44 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfallið var 45,3 prósent, en var 41,9 prósent í lok árs 2018. Heildarskuldir félagsins í árslok 2019 voru 383,3 milljónir evra, eða sem nemur um 53,2 milljörðum króna.