Hagvöxtur á síðasta ári, sem lengst af var gert ráð fyrir að yrði neikvæður vegna áfalla í efnahagslífinu, var 1,9 prósent samkvæmt nýjum tölum sem Hagstofa Íslands birti í dag. Á síðasta ársfjórðungi 2019, sem nær yfir þrjá síðustu mánuði þess árs, var hagvöxturinn 4,7 prósent.
Nokkrar vikur eru frá því að Seðlabanki Íslands birti sit mat á því hver hagvöxtur hefði verið í fyrra í febrúarriti Peningamála. Þá var hann sgður hafa verið 0,6 prósent, eða 1,3 prósentustigi minni en sá sem Hagstofan segir nú að hafi verið.
Hið samfellda hagvaxtarskeið Íslands sem hófst 2011 stendur því enn yfir. Mestur varð hagvöxturinn á þessu tímabili 2016, 6,6 prósent, en minnstur 1,3 prósent árið 2012. Árið 2018 var hann 3,8 prósent.
Síbreytilegar hagvaxtartölur
Tölur um væntan hagvöxt í fyrra tóki sífelldum breytingum þegar leið á síðasta ár. Framan af var búist við því að umtalsverður samdráttur yrði í hagkerfinu vegna áfalla sem fylgdu gjaldþroti WOW air, loðnubresti og vandræðum Icelandair Group vegna kyrrsetningar á 737 Max-vélunum. Afleiðingin af vandræðum flugfélaganna varð meðal annars sú að ferðamönnum sem heimsóttu Ísland fækkaði um 329 þúsund á síðasta ári, eða sem nemur nánast einni íslenskri þjóð, en hún telur nú um 364 þúsund manns. Þá fækkaði gistinóttum líka um 3,1 prósent á milli ára.
Í nóvember var hins vegar komið aðeins jákvæðara hljóð strokkinn og Hagstofan spáði einungis 0,2 prósent samdrætti. Nú er ljóst að sú spá var ansi fjarri raunveruleikanum. Alls skeikaði 2,1 prósentustigi á þeirri spá og þeirri áætlun sem birt er í dag og byggir á ársfjórðungslegum mælingum.
Í tilkynningu Hagstofunnar í dag segir að þrátt fyrir nær óbreytt þjóðarútgjöld mældist vöxtur landsframleiðslu 4,7 prósent að raungildi á fjórða ársfjórðungi ársins 2019 borið saman við sama tímabil árið 2018. „Vöxtur einkaneyslu mældist eitt prósent á tímabilinu, vöxtur samneyslu 3,8 prósent en þrjú prósent samdráttur mældist í fjármunamyndun. Að teknu tilliti til áhrifa birgðabreytinga jukust þjóðarútgjöld um 0,1 prósent á tímabilinu.“
Hagstofan segir að vöxtur landsframleiðslu skýrist því af jákvæðum áhrifum utanríkisviðskipta en innflutningur dróst saman um 10,2 prósent á tímabilinu á meðan útflutningur jókst um 0,5 prósent. Jákvætt framlag einkaneyslu og samneyslu var líka jákvætt, en nokkuð minna.
Mikið um mistök í útreikningum á hagvexti
Hagstofan virtist vera í nokkrum vandræðum á síðasta ári að reikna út réttan hagvöxt.
Þann 3. september 2019 leiðrétti Hagstofa Íslands tölur um hagvöxt á öðrum ársfjórðungi sem hún birti upphaflega nokkrum dögum áður. Í ljós hafði komið að hagvöxtur á ársfjórðungnum var 2,7 prósent en ekki 1,4 prósent líkt og sagði í fyrri tilkynningu hennar.
Þegar sú tilkynningin var birt voru fyrri niðurstöður um hagvöxt á fyrsta ársfjórðungi einnig leiðréttar. Í endurskoðaðri niðurstöðu Hagstofunnar kom í ljós að hagvöxtur á fyrstu þremur mánuðum ársins hafi verið neikvæður um 0,9 prósent en ekki jákvæður um 1,7 prósent líkt og fyrri niðurstöður hafi sagt til um.