Hagnaður Landsvirkjunar var 13,6 milljarðar króna á síðasta ári, sem er svipaður hagnaður í íslenskum krónum og árið 2018. Þegar hagnaðurinn er skoðaður í Bandaríkjadölum dróst hann þó saman um tæp sjö prósent.
Þetta kemur fram í ársreikningi Landsvirkjunar sem birtur var í dag.
Landsvirkjun, sem er að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins, hagnaðist um 21 milljarð króna á síðasta ári fyrir óinnleysta fjármagnsliði. Það er 5,9 prósent minni hagnaður en árið 2018 og spilar tekjutap vegna stöðvunar á kerskála þrjú hjá Rio Tinto í Straumsvík þar meginrullu. Það tekjutap er metið á 16 milljónir dala, eða um 1,9 milljarð króna.
Rekstrartekjur Landsvirkjunar lækkuðu um 4,6 prósent milli ára og voru 61,7 milljarðar króna. Alls greiddi fyrirtækið um 7,2 milljarða króna í tekjuskatt á síðasta ári.
Eigið fé um 271 milljarður króna
Skuldir Landsvirkjunar hafa lækkað hratt undanfarin ár og engin breyting varð þar á í fyrra. Nettó lækkuðu þær um 23,4 milljarða króna á árinu og voru í árslok 204,7 milljarðar króna, eða 1.691 milljón Bandaríkjadala. Matsfyrirtækið Moody's hækkaði lánshæfiseinkunn fyrirtækisins á árinu og S&P Global Ratings breytti horfum á sinni einkunn úr stöðugum í jákvæðar.
Eigið fé Landsvirkjunar var 2.235 milljónir Bandaríkjadala í árslok 2019, eða um 271 milljarðar króna. Flestir sérfræðingar telja reyndar að eignir Landsvirkjunar séu verulega vanmetnar – þær voru 531 milljarður króna um síðustu áramót – þar sem enn eigi eftir að uppfæra virði virkjana í eigu fyrirtækisins að raunvirði.
Í fyrra greiddi Landsvirkjun um 4,3 milljarða króna í arð til eiganda síns vegna frammistöðu ársins 2018. Stjórn félagsins mun á komandi aðalfundi gera tillögu um arðgreiðslu til eigenda. Í nánustu framtíð er áætlað að hægt verði að greiða 10 til 20 milljarða króna á ári úr Landsvirkjun í arð til eiganda síns. Til stendur að þessar arðgreiðslur myndi grunn fyrir Þjóðarsjóð sem í á að vera um 500 milljarðar króna eftir tæpa tvo áratugi. Frumvarp um Þjóðarsjóð er þó enn ósamþykkt og er sem stendur í þinglegri meðferð.