Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í morgun að setja á fót sérstakan stýrihóp sjö ráðuneytisstjóra um samfélagsleg og hagræn viðbrögð við Covid-19 veirunni. Þetta kemur fram í tilkynningu Stjórnarráðsins.
Þá segir að útbreiðsla Covid-19 veirunnar hafi víðtæk samfélagsleg og efnahagsleg áhrif um allan heim sem birtist meðal annars í lækkun hlutabréfa í kauphöllum og samdrætti í ferðaþjónustu.
„Stjórnvöld fylgjast náið með framvindu mála og leggja áherslu á að styrkja samhæfingu stjórnvalda þannig að unnt verði að grípa til viðeigandi ráðstafana á hverjum tíma. Stýrihópurinn mun leggja mat á stöðuna og nauðsynleg samfélagsleg og efnahagsleg viðbrögð á hverjum tíma,“ segir í tilkynningunni.
Hópinn skipa:
- Bryndís Hlöðversdóttir, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytis,
- Ásta Valdimarsdóttir, ráðuneytisstjóri heilbrigðisráðuneytis,
- Gissur Pétursson, ráðuneytisstjóri félags- og barnamálaráðuneytis,
- Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri fjármála- og efnahagsráðuneytis,
- Haukur Guðmundsson, ráðuneytisstjóri dómsmálaráðuneytis,
- Kristján Skarphéðinsson, ráðuneytisstjóri atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis,
- Sturla Sigurjónsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis.