Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir í viðtali við Mannlíf í dag að hann hafi orðið þess mjög fljótt áskynja eftir að hafa verið ráðinn í starfið að hann nyti ekki stuðnings Sjálfstæðisflokksins, sem var stærri flokkurinn í meirihlutanum í sveitarfélaginu.
Ágreiningurinn, sem leiddi til skyndilegra starfsloka Guðmundar í síðasta mánuði, hafi ekki snúist um ákveðin mál heldur nálgun og aðferðir. Meirihlutinn hafi litið á hann sem starfsmann sem ætti fyrst og síðast að taka við skipunum en hann sjálfur hefði litið á vinnuna sem teymisvinnu. Það sem sitji mest í honum frá bæjarstjóraferlinum sé símtal sem hann fékk frá Noregi í desember 2019 frá Daníel Jakobssyni, formanni bæjarráðs Ísafjarðarbæjar í starfsleyfi og fyrrverandi bæjarstjóra, sem þá var á leiðinni aftur heim til Ísafjarðar. „Hann endaði símtalið á því að segja svona í framhjáhlaupi: „Svo kem ég bara heim og tek af þér djobbið.“ Ég man að mér fannst þetta furðulegt og taktlaust og skrýtið. Hver segir svona í gríni eða alvöru?“
Rifist um hver ætti að taka á móti forsætisráðherra
Í viðtalinu við Mannlíf segir Guðmundur að það hafi líka skapast sérstakur ágreiningur um hlutverk bæjarstjórans og sýnileika í kjölfar snjóflóðanna á Flateyri og í Súgandafirði um miðjan janúar. Sá ágreiningur varð til þess að upp úr sauð.
Nokkrum dögum síðar var haldinn sáttafundur þar sem talsmenn meirihlutans lýstu yfir óánægju sinni með Guðmund og störf hans. Í kjölfarið var samið um starfslok hans og nýverið tilkynnti Guðmundur að hann myndi flytja frá Ísafirði með fjölskyldu sinni. Í stöðuuppfærslu á Facebook sagði hann meðal annars: „Hér líður okkur ekki lengur vel. Atburðir síðustu vikna hafa gert það að verkum. Ekki síst þær furðuskýringar sem grasserað hafa í kjölfar starfslokanna. En þetta er eins og það er. Við sjáum sæng okkar upp reidda og viljum ekki vera hluti af samfélagi þar sem fyrirferðamiklar stjórnmálahreyfingar umbera fantabrögð freka kallsins og dreifa svo rógburði til að réttlæta þau.“
Við höfum ákveðið að flytja frá Ísafirði. Það var ekkert endilega augljósasti kosturinn í stöðunni eftir starfslokin í...
Posted by Gudmundur Gunnarsson on Thursday, February 20, 2020