Orkustofnun hefur sent verkefnisstjórn fjórða áfanga rammaáætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða tólf virkjanahugmyndir sem ekki hafa áður verið teknar til meðferðar. Um er að ræða eina jarðvarmavirkjun, fimm vatnsaflsvirkjanir og sex vindorkuver. Stofnunin hyggst senda verkefnisstjórninni fleiri nýjar virkjanahugmyndir í apríl.
Landsvirkjun hefur hug á að stækka þrjár virkjanir sínar um samtals 210 MW: Sigöldustöð um 65 MW, Hrauneyjafossstöð um 90 MW og Vatnsfellsstöð um 55 MW.
Tillögur að tveimur öðrum nýjum vatnsaflsvirkjunum eru komnar til verkefnisstjórnarinnar; 16 MW Skúfnavatnavirkjun sem Vesturverk áformar á Vestfjörðum, og Hamarsvirkjun sem Hamarsvirkjun ehf., sem er í eigu Arctic Hydro, áformar í vatnasviði Hamarsár í Djúpavogshreppi.
Ein hugmynd að nýrri jarðvarmavirkjun hefur borist verkefnisstjórninni, 100 MW Bolölduvirkjun, sem Reykjavík Geothermal fyrirhugar.
Vindorkuverin sex sem nú fara til meðferðar í rammaáætlun eru öll á vegum fyrirtækisins Quadran.
Tilkynnt um 29 virkjanakosti í vindorku
Í bréfi frá Orkustofnun til verkefnisstjórnarinnar segir að hugmyndirnar tólf séu nýjar í þeim skilningi að þær hafi ekki verið til meðferðar í þriðja áfanga rammaáætlunar eða feli í sér nýja og svo breytta útfærslu á eldri virkjunarkostum að þörf sé á endurmati þeirra.
Orkustofnun hafði í lok janúar verið tilkynnt um 42 nýja virkjunarkosti, þar af sex í vatnsafli, sjö í jarðhita og 29 í vindorku. Af þeim liggja fyrir gögn um tólf sem stofnunin telur fullnægjandi og hefur nú verið send verkefnisstjórninni til umfjöllunar. Í bréfi stofnunarinnar er tekið fram að enn ríki réttaróvissa um stjórnsýslu vindorkunnar og að málefni hennar séu til meðhöndlunar innan stjórnarráðsins. Upplýst hafi verið um áform um lagasetningu vegna hennar.
„Í ljósi þess að enn er beðið niðurstöðu hefur Orkustofnun haldið sig við sömu meðhöndlun á vindorku og unnið var eftir við þriðja áfanga rammaáætlunar, þ.e. að koma virkjunarkotsum og gögnum um þá á framfæri við verkefnisstjórn í samræmi við óskir virkjunaraðila, án þess að leggja endanlegt mat á það hvort þau séu fullnægjandi.“
Átján kostir í nýtingarflokki: 1421 MW
Þriðji áfangi rammaáætlunar var afgreiddur frá verkefnisstjórn með lokaskýrslu í ágúst árið 2016, fyrir rúmlega fjórum árum síðan. Þingsályktunartillaga byggð á þeirri niðurstöðu hefur í tvígang verið lögð fram á Alþingi en vegna endurtekinna stjórnarslita er hún enn óafgreidd. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hyggst leggja tillöguna fram í þriðja sinn nú á vorþingi og í óbreyttri mynd.
Í þriðja áfanganum lagði verkefnisstjórnin til að átta nýir virkjunarkostir bættust í orkunýtingarflokk áætlunarinnar; Skrokkölduvirkjun, Holtavirkjun, Urriðafossvirkjun, Austurgilsvirkjun, Austurengjar, Hverahlíð II, Þverárdalur og Blöndulundur.
Um er að ræða fjórar vatnsaflsvirkjanir með uppsett afl upp á alls 277 MW, þrjár jarðhitavirkjanir með uppsett afl allt að 280 MW og eitt vindorkuver með uppsett afl allt að 100 MW. Ekki voru lagðar til breytingar á flokkun þeirra virkjunarkosta sem fyrir voru í orkunýtingarflokki en þeir eru alls tíu talsins. Samtals var því lagt til að átján virkjunarkostir yrðu flokkaðir í orkunýtingarflokk og hafa þeir samtals 1421 MW uppsett afl.
26 virkjanakostir í verndarflokki
Í verndarflokk bættust við fjögur landsvæði með tíu virkjunarkostum, þ.e. Skatastaðavirkjunum C og D, Villinganesvirkjun, Blönduveitu úr Vestari-Jökulsá, Fljótshnjúksvirkjun, Hrafnabjargavirkjunum A, B og C, Búlandsvirkjun og Kjalölduveitu. Allir nýir virkjunarkostir á landsvæðum í verndarflokki eru vatnsaflsvirkjanir. Ekki voru lagðar til breytingar á flokkun þeirra virkjunarkosta sem fyrir voru í verndarflokki en þeir eru sextán talsins.
Samtals var því lagt til að 26 virkjunarkostir verði flokkaðir í verndarflokk. Kort yfir þau svæði sem verkefnisstjórn lagði til að færu í verndarflokk er að finna hér á vefnum.
Þrjátíu og átta virkjunarkostir eru í biðflokki samkvæmt lokaskýrslu verkefnisstjórnarinnar og hafa tíu bæst við þann flokk frá fyrri áfanga. Þar af eru fjórir virkjunarkostir í jarðvarma (Trölladyngja, Innstidalur, Hágönguvirkjun og Fremrinámar), fimm í vatnsafli (Hólmsárvirkjun án miðlunar, Hólmsárvirkjun neðri við Atley, Búðartunguvirkjun, Hagavatnsvirkjun og Stóra-Laxá) og einn í vindorku (Búrfellslundur).
Sjálfbær þróun að leiðarljósi
Verkefnisstjórn fjórða áfanga rammaáætlunar var skipuð af Björt Ólafsdóttur, þáverandi umhverfisráðherra, í apríl árið 2017. Formaður er Guðrún Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Stofnunar Sæmundar fróða. Hlutverk verkefnisstjórnar er að veita umhverfisráðherra ráðgjöf um vernd og orkunýtingu landsvæða.
Samkvæmt lögunum um rammaáætlun ber verkefnisstjórninni að sjá til þess að „… nýting landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati … með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.“
Verkefnisstjórnin hefur tvö verkfæri til að sinna þessari skyldu sinni: Hún sækir ráðgjöf til svokallaðra faghópa sem skipaðir eru sérfræðingum á ýmsum sviðum og hún leitar samráðs við hagsmunaaðila, stofnanir hins opinbera, almenning og frjáls félagasamtök á ýmsum stigum vinnunnar.
Verndar- og orkunýtingaráætlun tekur til landsvæða og virkjunarkosta sem verkefnisstjórn hefur fjallað um og hafa uppsett rafafl 10 MW eða meira eða uppsett varmaafl 50 MW eða meira.
Óskað eftir breyttum útfærslum
Í október á síðasta ári kallaði Orkustofnun að beiðni verkefnisstjórnar fjórða áfanga rammaáætlunar eftir nýjum hugmyndum að virkjanakostum. Í tilkynningu frá stofnuninni kom fram að þar sem afgreiðslu þriðja áfanga rammaáætlunar væri ekki lokið á Alþingi hafi ekki verið kallað fyrr eftir nýjum hugmyndum.
„Gera má ráð fyrir að verkefnisstjórn fjórða áfanga fjalli um alla virkjanakosti, sem eru nú í biðflokki,“ stóð i tilkynningunni. „Ef aðilar vilja að verkefnisstjórn fjalli um nýjar útfærslur á þeim virkjunarkostum sem eru í biðflokki í dag, geta þeir sent þær hugmyndir til Orkustofnunar.“
Kjarninn mun í dag og næstu daga fjalla ítarlega um þær nýju virkjanahugmyndir sem sendar hafa verið verkefnisstjórn 4. áfanga rammaáætlunar sem og þær hugmyndir sem lagðar eru til í þriðja áfanganum, ýmist í verndar-, orkunýtingar- eða biðflokk.