Gebo ehf. hefur verið gert að greiða Ingunni Láru Kristjánsdóttur, blaðamanni á Fréttablaðinu, 174.157 krónur ásamt dráttarvöxtum sem og 600.000 krónur í málskostnað. Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.
Gebo ehf. er eigandi vefmiðilsins Nútímans og auglýsingafyrirtækisins Skyn. Fjölmiðlamaðurinn Atli Fannar Bjarkason stofnaði miðilinn í ágúst 2014 en seldi árið 2018.
Ingunn Lára greinir frá niðurstöðu dómsins og aðdraganda á Facebook í dag. Hún segir að hún hafi starfað í eina viku hjá Nútímanum í fyrra og að henni hafi verið boðið 17 þúsund krónur fyrir 58 vinnustundir.
Margir þekkja ekki réttindi sín
Ingunn Lára segir í samtali við Kjarnann það vera ótrúlegt að sjá hvað blaðamönnum og listamönnum séu boðin hræðileg kjör og að ekki sé hægt að sætta sig við slíkt. Hún segir enn fremur að það taki á andlega að standa í málaferlum; að sitja fyrir framan dómara, gefa skýrslur og láta lögfræðinga „spyrja mann spjörunum úr.“
„Þetta hefur kennt mér mikið sem blaðamanni,“ segir hún og bætir því við að vonandi verði málið til þess að umræða skapist um það þegar vanþekking ungs fólks sé nýtt á þennan hátt því margir þekki ekki réttindi sín.
Öll samskipti óskýr og óþægileg
Í stöðuuppfærslunni á Facebook segir Ingunn Lára að öll samskipti við vinnuveitendur hennar á Nútímanum hafi verið óskýr og óþægileg. „Málið er þó skýrt: á Nútímanum er stunduð gervivertaka. Málið mitt er fordæmi og héraðsdómur hefur nú dæmt að greiðslukerfi þeirra: „Króna fyrir klikk“ er ólögmæt. Ég vona að allir núverandi starfsmenn þeirra sjái þetta,“ skrifar hún.
Hún segist ekki trúi því að fólk starfandi á miðlinum hafi sætt sig við þessi kjör og að enginn hafi gert athugasemd við fyrr en hún hafi gengið út af skrifstofu þeirra og hringdi beint í Blaðamannafélagið.
„Hvers vegna samþykkti ég þetta kerfi til að byrja með? Ég gerði það ekki. Ég mætti í viðtal og var boðið starf þar sem mér var lofað kjörum sem væru talsvert betri en hefðbundin blaðamannalaun. Þeir kölluðu það krónu fyrir klikk og máluðu myndina þannig að ég væri að fá í kringum 10 þúsund krónur fyrir hverja frétt. Ég hafði aldrei áður unnið á fréttavef og gat ekkert miðað við. Þeir nýttu sér vanþekkingu mína til að græða pening á mínu efni og ætluðu svo að borga mér kúk og kanil fyrir fréttir sem ég skrifaði og myndbönd sem ég klippti,“ skrifar hún.
58 klukkustunda vinna metin á 17 þúsund krónur
Ingunn Lára segist hafa spurt hvort um væri að ræða verktaka og hafi þeir sagt nei. „Ég tók við starfinu með einu skilyrði: Að við skyldum taka viðtal í vikunni um að skrá mig sem launþega. Ég fékk hins vegar aldrei það viðtal og ég fékk aldrei að sjá samning.“
„Eftir að ég gekk út af skrifstofunni, hálf hlæjandi og í áfalli eftir að hafa séð að 58 klukkustunda vinna mín væri metin á 17 þúsund krónur, ómaði ein setning í höfði mínu, sem fyrrverandi vinnuveitandi minn á Nútímanum sagði eftir að ég lýsti yfir furðu yfir laununum sem mér var boðið: „Þetta er bara kerfið okkar sem virkar. Við höfum séð allt of marga fjölmiðla fara á hausinn. Ef þú vilt eitthvað annað, farðu þá bara yfir á Fréttablaðið.“
Og viti menn, ég gerði einmitt það og hef nú starfað í 1 ár á Fréttablaðinu sem blaðamaður. Takk fyrir þetta, Nútíminn, þetta var á sama tíma það versta og besta sem ég hef lent í,“ skrifar hún að lokum í færslu sinni á Facebook.
Mikill sigur í dag eftir ár af óvissu. Áður en ég hóf störf hjá Fréttablaðinu þá vann ég í eina viku hjá Nútímanum....
Posted by Ingunn Lára Kristjánsdóttir on Tuesday, March 3, 2020