Íslandspóstur tapaði 510 milljónum króna í fyrra þrátt fyrir miklar breytingar sem gerðar voru á rekstrinum. Tapið er umtalsvert meira en var á árinu 2018, þegar það var 292 milljónir króna. Í tilkynningu frá fyrirtækinu, sem er að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins, kemur fram að tapið megi að stórum hluta skýra með kostnaði við endurskipulagningu Íslandspósts sem færður hafi verið til bókar í fyrra. Sá hluti er 225,1 milljón króna.
Rekstrartekjur Íslandspóst voru 7.745 milljónir króna sem eru 11 milljónum krónum lægri tekjur en árið áður. EBITDA-hagnaður Íslandspósts, sem er hagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta, var 265,6 milljónir króna en hafði verið 50,4 milljónir króna árið 2018. Því jókst rekstrarhagnaðurinn umtalsvert. Ef hann er skoðaður án einskiptiskostnaðar vegna endurskipulagningar á Íslandspósti var EBITDA-hagnaðurinn 491 milljón króna.
Í janúar var greint frá því að Íslandspóstur ætli að hætta dreifingu á ónafnamerktum fjölpósti á höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesi, Selfossi og Akranesi frá og með 1. maí næstkomandi. Pósturinn mun halda áfram bjóða upp á dreifingu á fjölpósti á öðrum svæðum og í dreifbýli. Þessi breyting leiðir til um 200 milljóna króna lækkunar kostnaðar á ársgrundvelli hjá fyrirtækinu.
Vaxtaberandi skuldir voru Íslandspóst voru 1.953 milljónir króna um síðustu áramót og höfðu lækkað úr 2.761 milljón króna ári áður. Handbært fé frá rekstri var 562,2 milljónir króna. Í tilkynningunni frá fyrirtækinu kemur fram að bréfum í einkarétti hafi fækkað um rúm 15 prósent milli ára en að níu prósent aukning hafi verið í pakkasendingum frá útlöndum.