Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir að náðst samkomulag milli aðila kjaradeilunnar um styttingu vinnuviku vaktavinnufólks. Enn eigi eftir að ná samkomulagi um launaliðinn og jöfnun launa. Viðræður halda áfram í dag og næstu daga en verkfallsaðgerðir, sem mikill meirihluti félagsmanna samþykkti, hefjast á mánudag náist ekki að semja fyrir þann tíma.
Í minnisblaði sem ríkislögreglustjóri, sóttvarnarlæknir og landlæknir hafa sent frá sér er skorað á þá sem nú eiga í kjaraviðræðum að leita allra leiða til að enda verkfallsaðgerðir sem standa yfir og koma í veg fyrir fyrirhugaðar aðgerðir.
Sonja Ýr segir í samtali við Kjarnann að undanþágunefndir vegna verkfalla taki til starfa strax í dag. Til þeirra er hægt að leggja fram beiðnir um undanþágur áður en fyrirhuguð verkföll skella á.
Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna tilkynnti í morgun að þeir hefðu frestað verkfallsaðgerðum sem áttu að hefjast í næstu viku.
Aðildarfélög BSRB eru í kjaraviðræðum við ríkið, Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga. Um 18 þúsund manns eru í þessum félögum samanlagt.