Markús Sigurbjörnsson, fyrrverandi forseti Hæstaréttar, segir í Landsréttarmálinu svokallaða, sem nú er til meðferðar hjá yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu, sé dómstóllinn farinn að fjalla um hluti sem séu rammpólitískir. Þetta kemur fram í viðtali við hann í nýjasta tölublaði Lögmannablaðsins.
Þar segir Markús, sem hætti störfum við Hæstarétt í fyrrahaust eftir að hafa dæmt við hann í aldarfjórðung, að Landsréttarmálið sé afskaplega erfitt og mikil raun fyrir íslenskt réttarkerfi. „Það er búið að grafa illa undan almenningsáliti og dómstólar eru alltaf viðkvæmir fyrir því að verða fyrir einhvers konar skeinum og sárum sem geta breyst í ígerð út frá almennri umfjöllun. Vandinn er ekki síst hvernig eigi að leysa þetta ef upphaflegi dómur Mannréttindadómstólsins stendur óbreyttur hjá Yfirdeildinni, eða þess vegna ef Yfirdeildin gengur lengra og telur alla fimmtán dómarana ranglega skipaða. Hvernig á að vera hægt að leysa úr þessu í kjölfarið gagnvart íslenskum réttarreglum? Það er ekki hægt að víkja þessum dómurum frá, það eru engar sakir þarna til að reka þá, þeir eru komnir undir stjórnarskrárvernd.“
Ólögmæt skipun dómara í Landsrétt
Í Landsréttarmálinu felst að Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, ákvað að víkja frá hæfnismati dómnefndar um skipun fimmtán dómara í Landsrétt í lok maí 2017. Hún ákvað þess í stað að tilnefna fjóra einstaklinga dómara sem nefndin hafði ekki metið á meðal 15 hæfustu og þar af leiðandi að skipa ekki fjóra aðra sem nefndin hafði talið á meðal þeirra hæfustu. Alþingi samþykkti þetta í byrjun júní 2017.
Auk þess komst Mannréttindadómstóll Evrópu að þeirri niðurstöðu í málinu í mars í fyrra að dómararnir fjórir sem voru færðir upp á lista Sigríðar væru ólöglega skipaðir, og geti þar með ekki fellt dóma yfir þeim sem fyrir þá koma, enda hafi þeir ekki hlotið réttláta málsmeðferð. Í kjölfar þess að dómur Mannréttindadómstólsins féll þá sagði Sigríður af sér embætti dómsmálaráðherra. Íslenska ríkið ákvað að vísa málinu til yfirdeildar Mannréttindadómstólsins og málflutningur þar fór fram fyrr á þessu ári. Niðurstöðu er að vænta á þessu ári.
Segir skipun dómara vera í gildi
Markús segir að í dómi Hæstaréttar í þessu máli hafi nálgunin veru sú að fyrsti punkturinn var að enginn hefði leitað ógildingar á skipununum og fyrir vikið stóðu þær óhaggaðar. „Næsta skref var þá að líta svo á að þetta fólk væri komið í stöðu dómara í skilningi stjórnarskrárinnar og laga.
Skipun þeirra er í gildi og hafi einhver annmarki verið á skipunarferlinu þá getur sá annmarki ekki leitt til þess að þetta sé allt bara markleysa. Það hlýtur að þurfa að horfa á málið þannig að skipunin þurfi að vera ógilt ef þetta á að útiloka viðkomandi frá dómstörfum. Þetta er allt önnur nálgun en Mannréttindadómstóllinn beitti. Hann segir bara einfaldlega að út af því að ranglega var staðið að þessari skipun þá er þetta fólk ekki dómarar.“