Efling og íslenska ríkið undirritaði nýjan kjarasamning síðdegis í dag. Á heimasíðu Eflingar segir að hann feli í sér taxtahækkanir að fyrirmynd Lífskjarasamningsins og styttingu vinnuvikunnar. Auk þess fylgja honum „viðbótaraðgerðir sem munu styrkja hugmyndafræðina um sérstakar hækkanir láglaunafólks og koma til móts við kröfuna um leiðréttingu á kjörum kvennastétta. Gildistími samningsins er langur eða til 31. mars 2023.“
Samningurinn var undirritaður með fyrirvara um samþykkt félagsmanna og verður á næstunni kynntur þeim í aðdraganda atkvæðagreiðslu um hvort að samþykkja eigi hann eða fella. „Viðræður okkar við ríkið hafa gengið vel nú á lokametrunum og sýna skýrt hverju er hægt að áorka þegar fólk eru lausnamiðað og hlustar hvert á annað,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar á heimasíðu félagsins í dag. „Ég mun mæla með þessum samningi við mína félagsmenn enda eru í honum mikilvæg skref í átt að því sem Efling hefur sóst eftir í viðræðum við ríki og sveitarfélög. Ég er bjartsýn á hann verði samþykktur af félagsmönnum okkar á Landspítalanum og öðrum ríkisstofnunum.“
Á heimasíðu Eflingar segir að samkvæmt samningnum komi fjárveiting til innröðunar starfsfólks í nýja launatöflu í ársbyrjun 2021.
Ræðst á næsta sólarhring hvort það náist saman við borgina
Það mun ráðast á næsta sólarhring hvort Efling og Reykjavíkurborg hafi færst nær því að gera nýjan kjarasamning. Sem stendur er það tvísýnt hvort svo sé. Þetta kom fram í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu Eflingar í dag.
Ekki hefur verið greint frá því hvernig fundarhöldum um helgina verði háttar en gert var fundarhlé um kvöldmatarleytið í gær eftir nokkuð stífa fundarsetu.
Takist ekki að semja fyrir mánudagsmorgun mun ótímabundið verkfall rúmlega 1.800 félagsmanna Eflingar sem starfa fyrir Reykjavíkurborg sem staðið hefur yfir frá 17. febrúar halda áfram. Starfsmennirnir sem um ræðir eru meðal annars ófaglærðir starfsmenn leikskóla, starfsfólk á dvalarheimilum og sorphirðumenn. Áhrif verkfallsins hafa verið víðtæk og birtingarmyndir þess ýmiskonar. Til að mynda hefur leiksskólastarf víða riðlast verulega og mörg börn hafa þurft að sæta skerðingu á dvalartíma eða hafa ekki getað dvalið neitt á leikskólum sínum. Þá hefur sorp safnast upp víða í höfuðborginni, þrátt fyrir að undanþága hafi fengist í síðustu viku til að hirða sorp.
Fleiri bætast við á mánudag að óbreyttu
Á morgun mun svo verkfall Eflingarstarfsfólks í flestum nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur hefjast. Þá átti líka að hefjast samúðarverkfall starfsmanna í einkareknum leik- og grunnskólum. Félagsdómur úrskurðaði hins vegar í lok liðinnar viku að það væri ólögmætt.
Á mánudag hefst einnig verkfall um 16 þúsund félagsmanna BSRB. Á meðal þeirra sem fara þá í verkfall eru starfsmenn leik- og grunnskóla sem eru í stéttarfélaginu Sameyki. Semjist ekki um helgina mun því skólastarf riðlast verulega í næstu viku.
Undanþágunefndum Sameykis stéttarfélag í almannaþjónustu og Sjúkraliðafélags Íslands barst í gær beiðni frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Landspítala vegna fordæmalausra aðstæðna sem nú er uppi vegna COVID-19 veirunnar og aukinni útbreiðslu hennar sem hefur leitt til þess að Almannavarnarnefnd lýsti yfir neyðarstigi.
Þær féllust á beiðni Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Landspítala um undanþágu allra starfsmanna vegna verkfalls félagsmanna dagana 9. og 10. mars 2020.