Eftir að Persónuvernd barst ábending þess efnis að sumum Facebook-notendum á Íslandi hefði birst hnappur með áminningu um að kjósa í alþingiskosningunum 28. október 2017, en öðrum ekki, ákvað stofnunin að senda Facebook erindi og afla upplýsinga þar um.
Þetta kemur fram í áliti sem Persónuvernd hefur birt en álitið er niðurstaða í frumkvæðisathugunarmáli stofnunarinnar á notkun stjórnmálasamtaka á samfélagsmiðlum fyrir kosningar til Alþingis í október 2016 og október 2017 til þess að afmarka markhópa og beina markaðssetningu að þeim.
Í álitinu kemur fram að Persónuvernd hafi með tölvupósti til Facebook á Írlandi 20. maí á síðasta ári óskað eftir upplýsingum um hvort Facebook hefði sjálft ákveðið að birta framangreindan áminningarhnapp og í hvaða tilgangi eða hvort einhver annar hefði óskað eftir þessari þjónustu hjá Facebook og hvernig persónuupplýsingar íslenskra Facebook-notenda hefðu verið notaðar til þess að ákveða hverjum hnappurinn birtist fyrir.
Tilgangurinn að upplýsa og hvetja notendur til borgaralegrar þátttöku
Persónuvernd barst svar frá Facebook með tölvupósti 3. júní 2019, segir í álitinu. Í svarbréfinu segir að Facebook hafi sett áminningarhnappinn efst á fréttaveitu íslenskra Facebook-notenda 28. október 2017. Tilgangurinn hafi verið að upplýsa og hvetja notendur til borgaralegrar þátttöku. Þetta sé þáttur í stuðningi við upplýst og samfélagslega ábyrgt samfélag á Facebook og hafi samskonar hnappur oft verið notaður í kringum kosningar, nú síðast fyrir kosningar til Evrópuþingsins.
Hnappurinn í umræddu tilviki hafi upplýst notendur um að það væri kosningadagur og vísað á vef Stjórnarráðsins um frekari upplýsingar. Þá var notendum boðið að deila því að þeir hefðu kosið. Samkvæmt svarbréfi Facebook var hnappurinn stilltur þannig að hann birtist öllum íslenskum Facebook-notendum sem voru komnir með kosningarrétt, þ.e. 18 ára og eldri. Upplýsingar um aldur séu fengnar frá notendum við skráningu á Facebook og upplýsingar um staðsetningu séu upplýsingar sem notendur skrái á notendasíður sínar eða upplýsingar sem fengnar séu í gegnum IP-tölur þeirra.
Utanaðkomandi aðili ekki óskað eftir hnappnum
Um hvað hafi valdið því að aðeins sumir Facebook-notendur sem heyrðu undir framangreindan hóp sáu hnappinn en aðrir ekki segir að þar geti ýmsar ástæður legið að baki, til að mynda að þeir sem ekki hafi séð hnappinn hafi notað eldri gerðir af tölvum eða símtækjum eða óuppfærðar útgáfur af smáforriti Facebook. Þá geti það hafa haft áhrif hafi nettenging verið hæg.
Utanaðkomandi aðili hafi því ekki óskað eftir hnappnum en Facebook hafi hins vegar upplýst íslenska dómsmálaráðuneytið um hann áður en hann hafi verið settur upp. Ráðuneytið hafi veitt upplýsingar um tengil á viðeigandi vefsíðu Stjórnarráðsins sem tengd hafi verið við hnappinn.
Samkvæmt framangreindu fór Facebook ekki í markhópagreiningu á íslenskum kjósendum þegar miðillinn notaði hnappinn á kjördag í alþingiskosningunum 2017. Hins vegar er ljóst, samkvæmt Persónuvernd, að með því að gera kosningahnappinn aðgengilegan íslenskum notendum Facebook gat hann haft áhrif á kosningaþátttöku á Íslandi og fylgdist jafnframt með þeim notendum hans sem deildu því að þeir hefðu kosið. „Miðað við hvaða forsendur liggja fyrir er erfitt að ráða hvort og þá hvaða áhrif hnappurinn hafði á úrslit alþingiskosninganna 2017, en miðað við þá staðreynd að rúmlega níu af hverjum tíu fullorðnum einstaklingum á Íslandi nota miðilinn er ekki óvarlegt að ætla að hnappurinn kunni að hafa haft áhrif,“ segir í álitinu.
Mun ekki birta hnappinn notendum sínum í Evrópusambandinu á meðan málið er til meðferðar
Þá kemur jafnframt fram að höfuðstöðvar Facebook innan EES séu staðsettar á Írlandi og sé því írska persónuverndarstofnunin forystueftirlitsyfirvald Facebook og falli því undir valdsvið hennar að skoða hvort starfsemi Facebook samrýmist ákvæðum reglugerðar ESB.
Í tengslum við þingkosningar á Írlandi 8. febrúar 2020 hafi írska persónuverndarstofnunin tilkynnt Facebook um að hnappurinn vekti upp áleitnar spurningar varðandi gagnsæi gagnvart hinum skráðu, sér í lagi þar sem notendur Facebook gætu ekki vitað hvernig persónuupplýsingum þeirra væri safnað við notkun hnappsins og þær síðan notaðar hjá miðlinum. Í framhaldinu hafi Facebook kynnt írsku stofnuninni tillögur að úrbótum hvað þetta varðar.
„Þar sem ekki gafst tími til að hrinda þeim tillögum í framkvæmd fyrir kosningarnar ákvað Facebook að birta ekki hnappinn. Þá hefur Facebook staðfest í fjölmiðlum að miðillinn muni ekki birta hnappinn notendum sínum í Evrópusambandinu á meðan málið er til meðferðar hjá írsku persónuverndarstofnuninni. Persónuvernd fylgist náið með framvindu málsins hjá stofnununni í samræmi við hlutverk sitt,“ segir í álitinu.