Úrvalsvísitala íslensku Kauphallarinnar, sem er saman sett úr gengi þeirra tíu félaga á markaði sem hafa mestan seljanleika, hefur lækkað um tæpan fimmtung frá 21. febrúar. Þann föstudag var gengi hennar 2.170,5 stig en við lok viðskipta í dag var hún rétt rúmlega 1.763,3 stig. Hún lækkaði um 3,5 prósent í dag eftir að hafa jafnað sig lítillega í lok dags. Þorra hans var lækkunin um og yfir fimm prósent.
Sú þróun er í takti við það sem er að gerast á heimsvísu en viðskipti voru meðal annars stöðvuð tímabundið í kauphöllinni í New York í morgun eftir að S&P vísitalan hafði lækkað um sjö prósent á fyrstu fimm mínútunum eftir opnun markaða. Hlutabréfamarkaðir í Evrópu og Asíu féllu líka skarpt. Ástæður þessa eru fyrst og síðast áframhaldandi efnahagsleg áhrif af útbreiðslu kórónuveirunnar og hratt lækkandi heimsmarkaðsverðs á olíu. Verðfallið á mörkuðum í Bandaríkjunum var það mesta síðan í ágúst 2011.
Allir lækkuðu á Íslandi
Öll félögin 20 sem skráð eru á aðalmarkað hérlendis féllu í verði í dag. Mest lækkaði Origo, um tæplega sex prósent, og gengi bréfa í félaginu hefur ekki verið lægra frá því í maí í fyrra.
Kvika banki kom þar á eftir, en félagið lækkaði um 5,83 prósent. Um tíma síðdegis höfðu bréf í félaginu lækkað um meira en átta prósent.
Kvika var skráður á aðalmarkað í mars í fyrra. Fyrsti viðskiptadagur þar með bréf í bankanum var 28. mars og í lok hans var virði þeirra 10,1 krónur á hlut. Virði bréfa í Kviku í dag er 7,91 krónur á hlut, eða um 22 prósent lægra virði en var fyrir tæpu ári síðan.
Icelandair hefur fallið allra félaga mest í virði undanfarið. Frá 19. febrúar hefur markaðsvirði fyrirtækisins lækkað um 41 prósent og er nú 27,7 milljarðar króna. Til samanburðar má nefna að virði Icelandair var 191,5 milljarðar króna í apríl 2016 og í millitíðinni er búið að auka hlutafé félagsins. Eigið fé þess var rúmlega 60 milljarðar króna um síðustu áramót og því er markaðsvirðið tæplega helmingur þess.
Verðmætasta félagið á markaði, Marel, fór með himinskautunum í fyrra og virði þess hækkaði um 66 prósent á árinu 2019. Markaðsvirði félagsins í lok árs var 473,4 milljarðar króna. Það hélt áfram að hækka framan af árinu 2020 og virði þess skreið yfir 500 milljarða króna um tíma í janúar. Nú er það um 379,3 milljarðar króna og því hafa um 120 milljarðar króna af markaðsvirði Marel horfið á tæpum tveimur mánuðum.
Gengi íslensku krónunnar hefur líka veikst hratt, eða um rúmlega sex prósent gagnvart evru á þessu ári.