Verkaskipting ríkislögreglustjóra og lögreglustjóra þarf að vera skýrari

„Erfitt ástand“ og „tortryggni“ hafði verið til staðar í samskiptum á milli lögreglustjóra og efsta stjórnunarlags ríkislögreglustjóra um langt skeið og nauðsynlegt er að endurskoða verkaskiptinguna þar á milli, samkvæmt nýrri úttekt Ríkisendurskoðunar.

Haraldur Johannessen, fyrrverandi ríkislögreglustjóri.
Haraldur Johannessen, fyrrverandi ríkislögreglustjóri.
Auglýsing

Viðtal Haraldar Johannessen fyrrverandi ríkislögreglustjóra við Morgunblaðið í september og vantraustsyfirlýsing sem Haraldur fékk í kjölfarið frá átta af níu lögreglustjórum landsins voru lýsandi fyrir það „erfiða ástand og þá tortryggni“ sem skapast hafði innan lögreglu vegna langvarandi ófullnægjandi samskipta á milli lögreglustjóra og efsta stjórnunarlags ríkislögreglustjóra. 

Þetta segir í nýrri úttekt Ríkisendurskoðunar á embætti ríkislögreglustjóra, sem birt var í dag. Ríkisendurskoðandi telur að það þurfi að breyta lögreglulögum til þess að skýra verkaskiptingu ríkislögreglustjóra og lögreglustjóra landsins. 

Ríkisendurskoðandi ákvað að höfðu samráði við dómsmálaráðuneytið að ráðast í úttekt á embættinu í heild sinni í haust, en áður hafði borist beiðni frá embættinu sjálfu um að ráðist skyldi í úttekt á rekstri bílamiðstöðvar ríkislögreglustjóra, sem styr hafði staðið um á opinberum vettvangi.

Auglýsing

Í skýrslunni sem birt var í dag bendir ríkisendurskoðandi meðal annars á að óeining um valdmörk og yfirstjórnunarhlutverk ríkislögreglustjóra hafi undanfarin ár leitt til þess að lögreglustjórar hafi í auknum mæli leitað beint til dómsmálaráðuneytis vegna ýmissa mála, í stað þess að leita til ríkislögreglustjóra.

Mikilvægt að lögregla verði ein heild

Þessa óeiningu rekur ríkisendurskoðandi til skorts á samstarfi, samráði og upplýsingaflæði innan lögreglunnar. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra kynnti í desember nýtt lögregluráð, einmitt til þess að auka samvinnu og samráð innan lögreglunnar. Það hefur verið starfandi frá áramótum. Í skýrslunni er tekið undir það sem dómsmálaráðuneytið hefur gefið út, að lögeglan á Íslandi þurfi í auknum mæli að starfa sem ein heild. 

„Skapa þarf skilning og sátt meðal lögregluliða um markmið og leiðir, en slíkt næst best fram með samráði, samtali, skýrri stefnumörkun og markvissri eftirfylgni. Þannig telur Ríkisendurskoðun að nálgast þurfi uppbyggingu og skipulag löggæslu með það fyrir augum að lögreglan á Íslandi starfi í framtíðinni sem ein lögregla, eitt lið undir sameiginlegri stjórn, óháð fjölda umdæma eða fyrirkomulagi einstakra verkefna innan skipulagsins, hvort sem þau eru unnin á landsvísu eða í nærumhverfinu,“ segir í niðurstöðukafla skýrslunnar.

Slíkt segir ríkisendurskoðandi að væri í takt við þá löggæsluþróun sem átt hefur sér stað meðal þeirra ríkja sem Ísland ber sig helst saman við. Jafnframt mætti með slíku skipulagi stórbæta nýtingu þeirra fjármuna sem ætlað er til löggæslu í landinu á sama tíma og framkölluð væru veruleg áhrif til faglegrar samlegðar, hagkvæmni og skilvirkni.

Rekstur bílamiðstöðvarinnar ógagnsær

Lögreglustjórar landsins gagnrýndu margir rekstur bílamiðstöðvar ríkislögreglustjóra opinberlega frá því í árslok 2018 og fram á mitt síðasta ár, er óskað var formlega eftir úttekt á rekstrinum. Ríkisendurskoðun segir að margir samverkandi þættir hafi orðið til þess að grundvöllur fyrir áframhaldandi rekstri bílamiðstöðvarinnar brást og samstaða um miðlægan samrekstur lögreglu rofnaði.

Þannig hafi fyrirkomulagið verið „afar ógagnsætt“ gagnvart lögregluembættunum og „ekki til þess fallið að skapa skilning og sátt um reksturinn“, galdskráin tekið mið af ýmsum öðrum kostnaðarþáttum en rekstri ökutækjanna, sem stuðlaði að óvissu og ágreiningi um kostnaðarforsendur. Einnig hafi kostnaðurinn lagst á lögregluembættin af mismiklum þunga.

Þá hefði rekstur bílamiðstöðvarinnar þurft að vera aðskilinn frá rekstri embættis ríkislögreglustjóra, „til að stuðla að gagnsæi rekstursins og aðgreiningu mismunandi kostnaðarþátta og til að fyrirbyggja tortryggni um að embættið nýtti þá fjármuni sem lögregluembættin greiddu bílamiðstöðinni í óskyldan rekstur.“

Fyrirkomulagið var svo einnig, að mati ríkisendurskoðanda, „einfaldlega of dýrt og og á endanum ósjálfbært“ auk þess sem fjárfestingarframlag samrekstursins stóð ekki undir nauðsynlegri endurnýjunarþörf ökutækjaflotans. 

„Athygli vekur að meðalaldur ökutækja lögreglu var hærri á árinu 2018 en þegar ákvörðun var tekin um samrekstur á árinu 1998 vegna þess sem þá var talið neyðarástand í bílamálum lögreglu,“ segir ríkisendurskoðandi, sem mælir þó með því að ýmsum verkefnum bílamiðstöðvar verði áfram sinnt með miðlægum hætti, meðal annars til að tryggja samræmi í tækjakosti lögreglu og nauðsynlega samhæfingu í rekstri og eftirliti.

Ríkisendurskoðun hefur þannig efasemdir um að lögreglan í landinu notist í vaxandi mæli við bílaleigubíla og telur þróun í þá áttina „umhugsunarverða“. 

„Sérstök öryggissjónarmið kunna að mæla með því að lögreglan eigi þau ökutæki sem hún nýtir við löggæslustörf og býr viðkvæmum tæknibúnaði, þótt lögreglan sé í öllum tilfellum eigandi búnaðarins og fjarlægi hann að leigutíma liðnum. Jafnframt kunna þær aðstæður að skapast að það þætti óheppilegt að lögreglan væri háð föstum viðskiptaskuldbindingum við einkafyrirtæki um leigu á ökutækjum til langs tíma,“ segir í skýrslunni.

Faglegt lögreglustarf öflugt þrátt fyrir togstreitu

Embætti ríkislögreglustjóra hefur umsjón með ýmsum sérstökum verkefnum innan löggæslunnar hérlendis og annast rekstur sérsveitar, almannavarnadeildar, alþjóðadeildar, landamæradeildar, greiningardeildar, stoðdeildar og fleiri eininga. Í skýrslu ríkisendurskoðanda segir að almennt hafi ríkt góð sátt um þessi verkefni ríkislögreglustjóra og þau sögð til marks um þá „eflingu og framþróun“ sem átt hefur sér stað frá því embætti ríkislögreglustjóra var komið á fót árið 1997.

„Faglegt löggæslustarf innan embættis ríkislögreglustjóra hefur þannig verið öflugt þrátt fyrir togstreitu um yfirstjórn lögreglu á síðustu árum,“ segir í skýrslunni, en þar eru settar fram sjö tillögur til úrbóta, sú fyrsta að endurskoða þurfi lögreglulög og skýra hlutverk ríkislögreglustjóra og stöðu embættisins í löggæslunni hérlendis.

„Verkaskipting ríkislögreglustjóra og lögreglustjóra þarf að vera skýr og hvaða valdmörk gilda varðandi yfirstjórnunarhlutverk ríkislögreglustjóra í umboði dómsmálaráðherra. Þá þarf að skýra hlutverk og ábyrgð nýstofnaðs lögregluráðs,“ segir ríkisendurskoðandi.


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Losun koldíoxíðs út í andrúmsloftið á stóran þátt í því að þolmarkadagur jarðar er jafn snemma á árinu og raun ber vitni.
Þolmarkadagur jarðarinnar er runninn upp
Mannkynið hefur frá upphafi árs notað þær auðlindir sem jörðin er fær um að endurnýja á heilu ári. Til þess að viðhalda neyslunni þyrfti 1,7 jörð.
Kjarninn 29. júlí 2021
Örn Bárður Jónsson
Ný stjórnarskrá í 10 ár – Viska almennings og máttur kvenna
Kjarninn 29. júlí 2021
Til að fá að fljúga með flugfélaginu Play verða farþegar að skila inn vottorði um neikvæða niðurstöðu úr PCR-prófi eða hraðprófi.
Hafa þurft að vísa vottorðalausum farþegum frá
Flugfélagið Play hefur fengið jákvæð viðbrögð við þeirri ákvörðun að meina farþegum um flug sem ekki hafa vottorð um neikvætt COVID próf. Fyrirkomulagið verður enn í gildi hjá Play þrátt fyrir að vottorðalausum muni bjóðast sýnataka á landamærunum.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kamilla Jósefsdóttir og Alma Möller landlæknir.
Sértæk bóluefni gegn delta-afbrigði „okkar helsta von“
Frá því að fjórða bylgja faraldursins hófst hér á landi hafa sextán sjúklingar legið á Landspítala með COVID-19. Tíu eru inniliggjandi í dag, þar af tveir á gjörgæslu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kort Sóttvarnastofnunar Evrópu sem uppfært var í dag.
Ísland orðið appelsínugult á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu
Mikil fjölgun greindra smita hér á landi hefur haft það í för með sér að Ísland er ekki lengur grænt á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu. Væru nýjustu upplýsingar um faraldurinn notaðar yrði Ísland rautt á kortinu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningateymis almannavarna.
Smitrakningunni „sjálfhætt“ ef fjöldi smita vex gríðarlega úr þessu
Miklar annir eru nú hjá smitrakningarteymi almannavarna. Á bilinu 180-200 þúsund notendur eru með smitrakningarforrit yfirvalda í símum sínum og það gæti reynst vel ef álagið verður svo mikið að rakningarteymið hafi ekki undan. Sem gæti gerst.
Kjarninn 29. júlí 2021
Ari Trausti Guðmundsson
Faraldur er ekki fyrirsjáanlegur
Kjarninn 29. júlí 2021
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
„Ekki má hringla með marklínuna“
Dómsmálaráðherra vonar að stjórnarandstöðunni „auðnist ekki að slíta í sundur þá einingu sem ríkt hefur meðal landsmanna í baráttunni gegn veirunni“. Samhliða útbreiddri bólusetningu þurfi að slá nýjan takt og „leggja grunn að eðlilegu lífi á ný“.
Kjarninn 29. júlí 2021
Meira úr sama flokkiInnlent