Stjórnvöld ætla að verja rúmum 4,8 milljörðum króna til uppbyggingar á innviðum ferðamannastaða næstu þrjú árin og leggja aukið fjármagn í landvörslu á friðlýstum svæðum. Einum og hálfum milljarði króna verður veitt til verkefna á þessu ári.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ráðherra ferðamála og Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra kynntu úthlutanirnar á sameiginlegum blaðamannafundi í Norræna húsinu í morgun
Úthlutanirnar eru annars vegar úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða og úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, sem úthlutar til verkefna á svæðum sem eru í eigu sveitarfélaga og einstaklinga.
Rúmum þremur milljörðum er úthlutað vegna landsáætlunarinnar til þriggja ára og 502 milljónum úr framkvæmdasjóðnum, til eins árs, en alls er áætlað að 1,7 milljörðum verði úthlutað úr sjóðnum til loka árs 2022.
„Utan við þessar áætlanir erum við líka að fjölga landvörðum svo um munar,“ sagði Guðmundur Ingi á fundinum, en til ársloka 2022 er gert ráð fyrir að um 1,4 milljarðar króna renni til landvörslu.
Háir styrkir til verkefna við Bolafjall og Stuðlagil
Styrkbeiðnir í Framkvæmdasjóð ferðamanna námu alls 2,3 milljörðum, en 502 milljónum var úthlutað að þessu sinni, til 33 verkefna.
Stærsti styrkurinn fer til uppbyggingar á útsýnispalli á Bolafjalli við Bolungarvík, en um 160 milljónir renna til þess verkefnis. Þá fara 80 milljónir í uppbyggingu í Stuðlagili á Jökuldal, sem hefur á undanförnum árum orðið einn af vinsælli áfangastöðum ferðamanna á Austurlandi. Stefnt er að uppbyggingu beggja megin árinnar. Átta verkefni til viðbótar fá meira en tíu milljón króna styrki í ár.
Verkefnið á Bolafjalli hefur áður fengið úthlutað úr sjóðnum og sagði Þórdís Kolbrún að þegar útsýnispallurinn væri kominn upp yrðu Vestfirðir „annar og meiri áfangastaður“ en þeir eru í dag og miklar væntingar væru til verkefnisins.