Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að beita sér fyrir markvissum aðgerðum til að mæta efnahagslegum áhrifum COVID-19. Aðgerðirnar miða að því að draga úr tjóni, tryggja að neikvæð áhrif á atvinnulíf og efnahag vari sem skemmst og skapa aðstæður fyrir öfluga viðspyrnu í kjölfarið. Þá var tilkynnt að vegna gjörbreyttra efnahagslegra forsendna yrði fjármálaáætlun lögð fram í maí.
Þetta kom fram á fundi í dag þar sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra kynntu aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að mæta efnahagslegum áhrifum kórónuveirunnar..
Katrín sagði að aðgerðirnar væru bæði vegna almennrar kólnunar í hagkerfinu en ekki síst vegna útbreiðslu kórónuveirunnar, „sem er auðvitað hafa mjög dramatísk áhrif á allar þjóðir um þessar mundir“.
Sagði hún Ísland að mörgu leyti vel í stakk búið til að takast á við „þann skell sem fyrirséð er að verði“ með öflugum gjaldeyrisvaraforða, jákvæðan viðskiptajöfnuð, lágt skuldahlutfall og hagstæð lána- og vaxtakjör. „En það breytir því ekki að við sjáum fram á að allar okkar fyrri áætlanir þarf nú að endurskoða út af þeirri stöðu sem er uppi í heimshagkerfinu.“
Lífvænlegum fyrirtækjum veitt súrefni
„Í fyrsta lagi horfum við til fyrirtækjanna,“ sagði Bjarni á fundinum, „og spyrjum okkur hvað það er sem stjórnvöld geta gert til að létta þeim þetta erfiða skeið. Við trúum því að þetta sé tímabil sem muni ganga yfir og að við taki eðlilegri tímar.“
Bjarni nefndi einnig að í undirbúningi væri markaðsátak í samvinnu við ferðaþjónustuna sem ríkissjóður hefði skuldbundið sig til að setja „verulega fjármuni“ í. Átakið felst í því að markaðssetja Ísland sem áfangastað, „þegar að ský dregur frá sólu og aðstæður eru að nýju orðnar hagfelldar til að kalla ferðamenn til landsins. Þá verðum við tilbúin.“
Ríkisstjórnin hefur að sögn Bjarna þegar hafið samstarf við Samtök fjármálafyrirtækja til að tryggja greiðar boðleiðir á milli. „Eins líka til þess að gera kröfu um að samhliða mögulegum slíkum aðgerðum stjórnvalda að þá séu menn skipulagðir í því að veita lífvænlegum fyrirtækjum sem lenda í tímabundnum lausafjárskorti súrefni.“
Lengri frestir og skattar afnumdir
Til að verja íslenskt efnahagslíf mun ríkisstjórnin beita sér fyrir eftirfarandi aðgerðum:
- Fyrirtækjum sem lenda í tímabundnum rekstrarörðugleikum vegna tekjufalls verði veitt svigrúm, t.d. með lengri fresti til að standa skil á sköttum og opinberum gjöldum.
- Skoðað verði að fella tímabundið niður tekjuöflun sem er íþyngjandi fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu, t.d. gistináttaskatt sem verður afnuminn tímabundið.
- Markaðsátaki verður hleypt af stokkunum erlendis þegar aðstæður skapast til þess að kynna Ísland sem áfangastað, auk átaks til að hvetja til ferðalaga Íslendinga innanlands.
- Gripið verði til ráðstafana sem örvað geta einkaneyslu og eftirspurn, t.d. með skatta- eða stuðningskerfum.
- Aukinn kraftur verði settur í framkvæmdir á vegum opinberra aðila á yfirstandandi ári og þeim næstu.
- Efnt verði til virks samráðs milli stjórnvalda og samtaka fjármálafyrirtækja um viðbrögð þeirra við fyrirsjáanlegum lausafjár- og greiðsluörðugleikum fyrirtækja í ferðaþjónustu.
- Innstæður ÍL-sjóðs í Seðlabankanum verði fluttar á innlánsreikninga í bönkum til að styðja við svigrúm banka og lánardrottna til að veita viðskiptamönnum sínum lánafyrirgreiðslu.
Bjarni sagði að í fyrsta lagi verði ríkisstjórnin ákveðið á fundi sínum í morgun að senda erindi til þingsins þess efnis að litið væri svo á að forsendur fjármálastefnunnar væru brostnar og af þeim sökum þurfi nýja stefnu og áætlun á næstu mánuðum. „Það sem við teljum nauðsynlegt að gera á þessari stundu er að boða aðgerðir sem koma að gagni í þeirri fyrirséðu niðursveiflu sem hagkerfið okkar er að fara að fást við.“
Sagði Bjarni að ferðaþjónustan myndi finna fyrir áhrifum þessara atburða sem teygi anga sína um allan heim og því væri fyrir hendi fyrirséðar tímabundnar aðstæður sem bregðast þurfi við.
Af þeim sökum sæju stjórnvöld fyrir sér að fyrirtæki sem eigi við lausafjárvanda að etja fái frest til að standa skil á sköttum og gjöldum. Þá verði tímabundið felldir niður skattar á ferðaþjónustuna sem geta reynst íþyngjandi.
Benti Bjarni á að um tímabundið ástand væri að ræða en nauðsynlegt væri að grípa til aðgerða á þessu erfiða skeiði sem nú færi í hönd. Í kjölfarið myndu taka við „eðlilegir tímar“.
Nú væru góðir tímar til að örva framkvæmdir og til skoðunar væri að flýta framkvæmdum og koma þeim af stað í ár þó að þær hafi ekki verið á framkvæmdaáætlun ársins.