Þorsteinn Víglundsson þingmaður Viðreisnar leggur til, í færslu á Facebook, að stjórnvöld grípi til tímabundinnar niðurfellingar á opinberum gjöldum á borð við tryggingagjald til þess að milda efnahagsleg áhrif af útbreiðslu nýju kórónuveirunnar.
Leiðtogar ríkisstjórnarflokkanna hafa boðað til blaðamannafundar kl. 11:30 í dag til þess að kynna aðgerðir til að mæta áhrifum af útbreiðslu veirunnar.
„Rætt hefur verið um lengri gjaldfresti á opinberum gjöldum, líkt og gripið var til í hruninu. Mun betri og áhrifaríkari leið væri einfaldlega að fella niður tiltekin opinber gjöld tímabundið, t.d. í 2-3 mánuði, á meðan þyngsta efnahagslega höggið gengur yfir. Í þeim efnum lægi beint við að fella niður tryggingagjald og gistináttagjald. Slík aðgerð hefði bein og tafalaus áhrif á efnahagslífið og gæti komið í veg fyrir að fyrirtæki grípi til umfangsmeiri uppsagna en ella,“ skrifar Þorsteinn og bætir við að þriggja mánaða niðurfelling þessara gjalda myndi samsvara um 26 milljarða innspýtingu í efnahagslífið.
Á víðsjárverðum tímum er þörf á pólitísku hugrekki til að bregðast hratt og ákveðið við til að koma í veg fyrir að sú...
Posted by Þorsteinn Viglundsson on Tuesday, March 10, 2020
„Slík viðbrögð myndu sýna kjark og áræðni stjórnvalda til að beita fjárhagslegum styrk ríkissjóðs til að draga úr efnahagslegum áhrifum veirunnar,“ skrifar Þorsteinn, sem telur hefðbundin hagstjórnarúrræði duga skammt til þess að milda höggið sem útbreiðsla veirunnar er að valda efnahagslífinu.
Þá leggur hann einnig til að kólnun hagkerfisins verði mætt með því að gefa í hvað varðar opinbera fjárfestingu, meðal annars með því að hraða vegaframkvæmdum og öðrum mikilvægum innviðaframkvæmdum. Einnig leggur hann til í því samhengi að áform um veggjöld verði lögð til hliðar, þar sem tímafrek umræða um þau gætu þvælst fyrir því að uppbygging vegakerfisins gæti hafist.
Ríkisstjórnin kynnir aðgerðir í dag
Leiðtogar ríkisstjórnarflokkanna, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hafa boðað til blaðamannafundar í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í dag kl. 11:30.
Þar verða kynntar aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að mæta efnahagslegum áhrifum af útbreiðslu nýju kórónuveirunnar og COVID-19, sjúkdómsins sem veiran veldur.