Þrír af fimm stærstu hluthöfum Heimavalla, sem skráð er á íslenskan hlutabréfamarkað, hafa selt alla eign sína í félaginu. Um er að ræða Stálskip ehf., Snæból ehf. og Gana ehf. sem áttu samtals 23,53 prósent í félaginu.
Samkvæmt upplýsingum Kjarnans er kaupandinn norska félagið Fredensborg AS sem freistar þess nú að taka yfir Heimavelli alfarið í kjölfar þess að það gerði yfirtökutilboð í félagið. Verðið er 1,5 krónur á hlut og því hljóðar yfirtökutilboðið í heild sinni upp á 17 milljarða króna. Ekki liggur fyrir afstaða annarra hluthafa til tilboðsins en bæði Birta lífeyrissjóður, sem á 9,71 prósent í félaginu, og Arion banki, sem heldur á 5,44 prósent, eru yfir þeim mörkum sem sett eru fyrir flöggun til Kauphallar Íslands ef breyting verður á eignarhlut.
Fredensborg var þegar stærsti hluthafi Heimavalla með 10,22 prósent hlut eftir að hafa keypt þann hlut í janúar síðastliðnum. Heimavellir er stærsta leigufélag landsins á almennum markaði. Það á um tvö þúsund íbúðir á höfuðborgarsvæðinu, Akranesi, Borgarnesi, Ísafirði, Akureyri, Egilsstöðum, Reyðarfirði, Selfossi, í Hveragerði, Þorlákshöfn, Grindavík og Reykjanesbæ.
Reyndu að afskrá félagið
Lykilhluthafar Heimavalla reyndu að afskrá félagið í fyrra eftir að illa gekk að fá stóra fagfjárfesta á borð við lífeyrissjóði til að fjárfesta í því og eftir að félaginu mistókst að endurfjármagna sig í takti við fyrri áætlanir sem áttu að losa það undan arðgreiðsluhömlum.
Kauphöll Íslands hafnaði þeim tilraunum og þess í stað fóru helstu hluthafar Heimavalla í þá vegferð að selja eignir með það markmið að skila arðinum af þeim til hluthafa. Samhliða var haldið áfram, með umtalsverðum árangri, að leita að endurfjármögnun fyrir lánin sem meinuðu útgreiðslu á arði.
Markavirði Heimavalla er í dag er, líkt og áður sagði, rétt um 15 milljarðar króna og hafði hækkað umtalsvert framan af ári. Yfirtökutilboðið er því um tveimur milljörðum krónum yfir markaðsverði.
Eigið fé félagsins, munurinn á skuldum og eignum þess, er hins vegar mun hærri tala eða rúmlega 20 milljarðar króna miðað við síðasta birta uppgjör.
Í október hófu Heimavellir umfangsmikla áætlun um endurkaup á eigin bréfum, en til stendur að kaupa alls 337,5 milljónir hluta fram að næsta aðalfundi sem á að fara fram eftir tvo daga.
Við árslok 2019 áttu Heimavellir 1.637 íbúðir en áætlanir félagsins gera ráð fyrir að ríflega 400 íbúðir yrðu seldar út úr eignasafninu á árunum 2019 til 2021.