Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, sem fer með sjávarútvegsmál, telur að afnám stimpilgjalda af fiskiskipum, sem lögð er til í frumvarpi Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, raski í engu launakerfi sjómanna við veiðar íslenskra skipa úr íslenskum veiðiheimildum. „Þá verður ekki séð að tillagan hafi nein bein áhrif á aðrar veiðar sem nú eru stundaðar. Með tillögunni verður hægara að flytja skip tímabundið til annars ríkis, t.d. til Grænlands, en benda má á að með því geta orðið til nýjar eða auknar tekjur hjá íslenskum útgerðarfélögum og mögulega jafnframt tækifæri fyrir íslenska sjómenn. “
Þetta kemur fram í minnisblaði sem ráðuneytið hefur skilað inn til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis sem hefur frumvarpið nú til meðferðar.
Tilefni minnisblaðsins eru umsagnir Sjómannasambands Íslands og VM - félags vélstjóra og málmtæknimanna um frumvarpið þar sem þau sögðust ekki geta undir neinum kringumstæðum nema að einu leiti tekið undir nauðsyn þess að afnema stimpilgjöld af fiskiskipum. Undantekningin sé sú þegar skip komi í fyrsta skipti á íslenska skipaskrá.
Telja að stimpilgjöldin hafi verið nauðsynlegur hemill
Í umsögn þeirra sagði að stimpilgjöldin hafi verið nauðsynlegur hemill til að vernda störf íslenskra sjómanna sem taka laun eftir íslenskum kjarasamningum. Félögin benda á að í lang flestum tilfellum séu íslenskir sjómenn fjölskyldumenn sem eigi lífsviðurværi sitt undir öruggu rekstrarumhverfi þeirra skipa sem séu þeirra starfsvettvangur. „Með því að aflétta stimpilgjaldi er útgerðinni gert kleift að flagga skipum út og inni af íslenskri skipaskrá að eigin geðþótta og stefna afkomu sjómannanna í stórhættu.“
Áður hafði félag skipstjórnarmanna skilað sambærilegri umsögn og sagt að ákvæði laganna um stimpilgjöld væri sá þröskuldur sem komið hefði í veg fyrir „stóraukna hreyfingu skipa inn og út af íslenskri skipaskrá undir erlent flagg og til baka.“
Þessu er ráðuneyti sjávarútvegsmála, sem stýrt er af Kristjáni Þór Júlíussyni, algjörlega ósammála. Hægt er að lesa minnsblað ráðuneytisins í heild sinni hér.
Ráðuneytið tekur undir sjónarmið SFS
Afnám stimpilgjalda af fiskiskipum hefur lengi verið baráttumál Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), sem gæta hagsmuna útgerðarmanna. Í umsögn þeirra við frumvarpið, sem var birt í lok nóvember í fyrra, segja þau að mikilvægt sé að „heimatilbúnar hindranir dragi ekki mátt úr íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum sem eiga í harðri samkeppni á alþjóðlegum markaði. Stjórnvöld eru hvött til þess að gæta að samkeppnishæfni íslenskra útflutningsfyrirtækja því að í þeim efnum er hægara að styðja en reisa.“
SFS þvertekur einnig, líkt og ráðuneyti sjávarútvegsmála, fyrir það að staða íslenskra sjómanna muni breytast verði stimpilgjöldin afnumin. Á árunum 2008 til 2017 greiddu sjávarútvegsfyrirtæki rúmlega 1,2 milljarða króna í stimpilgjald vegna fiskiskipa.
SFS hafa barist hart fyrir því að gjaldið verði afnumið undanfarin misseri, meðal annars í umsögn um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2020 þegar það lá fyrir seint á síðasta ári. Þar sögðu þau aðgerðina nauðsynlega og löngu tímabæra.
Í umsögninni sagði meðal annars að það væri mat samtakanna að mikilvægt sé að átta sig á því að skip séu ekkert annað en atvinnutæki þeirra sem þau nota. „Með því að fara fram á háa greiðslu stimpilgjalda vegna skipa sem eru yfir 5 brúttótonnum á sér stað mismunun eftir atvinnugreinum, enda ljóst að aðrir lögaðilar sem notast þurfa við tæki á borð við flugvélar, rútur, vinnuvélar eða önnur stórvirk atvinnutæki er ekki skylt að greiða stimpilgjöld.[...] Jafnframt ber að nefna að fyrirtæki í útgerð sem hafa áhuga á að endurnýja sinn skipakost, þurfa ekki aðeins að greiða 1,6% stimpilgjald heldur verður það 3,2% af verðmæti viðskiptanna sem fer í stimpilgjöld. Þannig þurfa fyrirtækin jafnan að greiða bæði gjaldið við sölu eldra skips og síðan aftur við kaup á nýju skipi og því verður álagningin í raun tvöföld við endurnýjun skipastóls.“