Stjórn Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunarinnar (ESMA) hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna COVID-19 faraldursins. Þar mælir ESMA með að aðilar á fjármálamarkaði grípi nú þegar til ákveðinna aðgerða. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Seðlabanka Íslands í dag.
Þá segir að Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hafi að undanförnu verið í sambandi við aðila á markaði vegna áhrifa COVID-19. „Fjármálaeftirlitið tekur undir tilmæli ESMA og hvetur íslensk fyrirtæki á fjármálamarkaði til að grípa til þeirra aðgerða sem ráðlagðar eru,“ segir í tilkynningunni.
Kjarninn greindi frá því í morgun að Nasdaq Iceland hf., sem rekur íslensku kauphöllina, hefði ákveðið að breyta sveifluvörðum (e. Dynamic Volatility Guards) fyrir öll hlutabréf, kauphallarsjóð og skuldabréf sem skráð eru á Aðalmarkað og First North 12. mars 2020 vegna óvenjulegra aðstæðna á markaði.
Í tilkynningu vegna þessa segir að viðmið fyrir sveifluverði verði tvöfölduð og viðmið fyrir niðurfellingu viðskipta verði í samræmi við gildandi sveifluverði fyrir hvert verðbréf.
Kauphöllin mun endurmeta stöðuna innan dagsins og gæti ákveðið taka aftur upp fyrri viðmið í samfelldum viðskiptum þann 12. mars og mun þá senda út tilkynningu þess efnis. „Ef annað hefur ekki verið tilkynnt munu viðmið fyrir sveifluverði aftur fara í fyrra horf frá og með föstudeginum 13. mars.“