Nasdaq Iceland ehf., sem rekur íslensku kauphöllina,hefur tímabundið breytt viðmiðum fyrir kvika sveifluverði (e. dynamic volatility guards) fyrir Icelandair Group hf. í tíu prósent eftir mikið fall á bréfum félagsins í morgun og fyrir fasta sveifluverði (e. static volatility guards) í 20 prósent. Breytingin mun að óbreyttu ganga til baka frá og með 13. mars 2020.
Gegni Icelandair hefur hríðfallið frá því að markaðir opnuðu í morgun. Sem stendur eru bréf félagsins tæplega 18 prósent verðminni en þau voru í lok dags í gær. Eftir fyrstu viðskipti féllu þau strax um 22-23 prósent en hafa aðeins rétt úr kútnum síðan.
Nasdaq Iceland greindi frá því í morgun, fyrir opnum markaða, að kauphöllin myndi breyta sveifluvörðum (e. Dynamic Volatility Guards) fyrir öll hlutabréf, kauphallarsjóð og skuldabréf sem skráð eru á Aðalmarkað og First North 12. mars 2020 vegna óvenjulegra aðstæðna á markaði.
Í tilkynningu vegna þessa sagði að viðmið fyrir sveifluverði yrðu tvöfölduð og viðmið fyrir niðurfellingu viðskipta yrðu í samræmi við gildandi sveifluverði fyrir hvert verðbréf. Frekari breytingar, sem snúa að Icelandair og greint er frá hér að ofan, koma til viðbótar.
Sveifluverðirnir sem um ræðir eru þrenns konar, „dynamic volatility guards“ eða kvikir sveifluverðir, „static volatility guards“ eða fastir sveifluverðir og „auction safeguards“ eða uppboðsverðir. Kviku og föstu sveifluverðirnir valda rofi á samfelldum viðskiptum í tiltekinni tilboðabók við miklar verðbreytingar og fer þá tilboðabókin í uppboðsástand. Að loknu stuttu uppboði hefjast samfelld viðskipti á ný. Uppboðsvörðurinn framkallar á hinn bóginn framlengingu á uppboði (e. auction extension), hvort sem er við opnun eða lokun markaða, sé verðbreyting mikil.
Mismunandi viðmið eru fyrir hvert félag og eru þau valin miðað við seljanleika bréfa.