Vilhjálmur Birgisson, varaforseti ASÍ og formaður verkalýðsfélags Akraness, og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hafa birt sameiginlega yfirlýsingu þar sem þeir skora á stjórnvöld að „frysta tafarlaust vísitölu neysluverðs til verðtryggingar og koma þannig til móts við heimilin í landinu sem eru með verðtryggð húsnæðislán.“
Þetta vilja þeir gera í ljósi þess óvissuástands sem skapast hefur vegna COVID-19 veirunnar og mikillar veikingar krónunnar.
Einnig skora þeir á stjórnvöld að beita sér með sérstökum aðgerðum fyrir fólk á leigumarkaði sem flest eru með vísitölutryggða leigusamninga.
Óverðtryggð lán sem íslenskir bankar veittu með veði í húsnæði jukust um 80 milljarða króna í fyrra. Alls fór heildarumfang þeirra úr því að vera 289 milljarðar króna í 369 milljarðar króna. Það er aukning upp á tæp 28 prósent.
Á sama tíma drógust verðtryggð lán sem bankarnir eiga saman um 27,3 milljarða króna. Ástæðan fyrir því er meðal annars að finna í að Íbúðalánasjóður ákvað að kaupa 50 milljarða króna safn af verðtryggðum lánum af Arion banka og átti sú sala sér stað í september 2019. Ef lánasafnið hefði ekki verið selt til Íbúðalánasjóðs, sem hefur dregið sig mjög saman á útlánamarkaði á undanförnum árum og lánar einungis verðtryggt, hefði verið aukning á verðtryggðum lánum íslensku bankanna.
Hlutfallið á útlánum banka til húsnæðiskaupa fór því úr að vera 69 prósent verðtryggð lán og 31 prósent óverðtryggð í árslok 2018 í að vera 62 prósent verðtryggð og 38 prósent óverðtryggð.
Alls lánuðu lífeyrissjóðir landsins 101,6 milljarðar króna í sjóðsfélagalán á árinu 2019. Það er hæsta upphæð í krónum talið sem þeir hafa nokkru sinni lánað til íbúðarkaupa, en fyrra metið var 99,2 milljarðar króna árið 2017. Þegar tekið er tillit til verðbólgu síðustu tveggja ára var raunvirði útlána þó hæst á því ári.
Heildarumfang verðtryggðra lána sem lífeyrissjóðirnir hafa veitt jókst um 17 prósent á árinu 2019. Það fór úr 353 milljörðum króna í 414 milljarða króna. Á sama tíma jókst hins vegar umfang óverðtryggðra lána sem sjóðirnir veittu þeim sem borga í þá um 42,5 prósent, fór úr 80 milljörðum króna í 114 milljarða króna.
Verðtryggðu lánin eru þó enn mun hærra hlutfall af heildarútlánum lífeyrissjóða en þau óverðtryggðu, eða 78 prósent á móti 12 prósentum.
Verðbólga hefur að mestu verið undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands frá því í febrúar 2014. Undanskilið er rúmlega árs tímabil frá haustinu 2018 og fram í desember síðastliðinn þegar hún reis hæst upp í 3,7 prósent. Verðbólga mælist nú 2,4 prósent.