Það hafa komið inn færri bókanir síðustu tíu daga en fyrstu tíu dagana eftir Guð blessi Ísland ávarpið hans Geir H. Haarde. Það er algjört frost og engu líkara en það sé búið að skipa fólki að halda sig inni. Ég hef aldrei séð sölustopp og tíðar afbókanir eiga sér stað á sama tíma.“ Þetta segir Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrval-Útsýn, í samtali við ferðaþjónustufréttavefinn Túrista.
Hún segir að salan sé niður um níutíu prósent og að frost sé í pöntunum á öllum tegundum ferða.
Ljóst var í upphafi viku að ferðaþjónustan á Íslandi stæði frammi fyrir miklum áskorunum í ár vegna útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 veirunni. Svörtustu spár sem kynntar voru gerðu ráð fyrir að ferðamönnum gæti fækkað í allt að 1,6 milljón á þessu ári, sem myndi þýða að fækkunin á tveggja ára tímabili væri um 700 þúsund.
Icelandair, sem byggir viðskiptamódel sitt að stórum hluta á því að ferja farþega til og frá Bandaríkjunum, sendi frá sér tilkynningu í gærmorgun þar sem kom fram að ferðabannið myndi hafa „veruleg áhrif“ á flugáætlun Icelandair á tímabilinu og mun félagið draga enn frekar úr framboði á flugi í mars og apríl, umfram það sem áður hefur verið tilkynnt.
Hlutabréf í Icelandair féllu um tæp 23 prósent í gær og markaðsvirði félagsins við lok viðskipta var rétt um 21 milljarður króna. Það hefur ekki verið lægra frá því í janúar 2011. Markaðsvirði Icelandair fór niður fyrir 30 milljarða króna í fyrsta skipti í átta ár í byrjun viku og hefur haldið áfram að falla hratt.
Þegar markaðsvirði var hæst, í apríl 2016, var það 191,5 milljarðar króna. Síðan þá hefur hlutafé í Icelandair verið aukið um rúmlega fimm milljarða króna en markaðsvirðið samt komið niður í ofangreinda tölu.
Lausafjársstaða félagsins nam rúmum 39 milljörðum króna í árslok 2019. Eigið fé Icelandair var um 60 milljarðar króna á sama tíma. Markaðsvirðið er því um einn þriðji af eigin fé félagsins og rétt rúmur helmingur af lausu fé þess.