Starfsdagur verður í öllum leik- og grunnskólum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu á mánudag, sem stjórnendur og starfsmenn skólanna munu nota til að skipuleggja skólastarfið í samræmi við boðað samkomubann sem tekur gildi aðfaranótt mánudags.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Foreldrar leik- og grunnskólabarna eru beðnir um fylgjast vel með upplýsingum sem birtast munu um helgina og á mánudaginn, meðal annars á vefsíðum sveitarfélaganna og heimasíðum grunn- og leikskóla.
Einnig eru í undirbúningi sameiginlegar leiðbeiningar sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um frístundaheimili, íþróttastarf, íþróttamannvirki, skólahljómsveitir, og aðrar tómstundir barna.
Breytt skólastarf næstu vikurnar
Eins og fram hefur komið í dag verður áfram kennt í leik- og grunnskólum þrátt fyrir að samkomubann verði í gildi næstu vikur. Þó verður skólahaldið ákveðnum takmörkunum háð.
Hvað grunnskóla varðar, þá verður að tryggja að nemendur í hverri kennslustofu séu ekki fleiri en 20 talsins og einnig að nemendur blandist ekki á milli hópa, til dæmis í mötuneyti eða frímínútum. Þá þarf að þrífa eða sótthreinsa skólabyggingarnar eftir hvern einasta kennsludag.
Leikskólar mega hafa opið og halda uppi leikskólastarfinu, ef þeir tryggja að börn séu í fámennum hópum og aðskilin eins og kostur er. Einnig þarf að þrífa eða sótthreinsa leikskólabyggingarnar eftir hvern dag.