Arnar Þór Ingólfsson er nýr blaðamaður á ritstjórn Kjarnans. Hann hóf störf í byrjun liðinnar viku.
Arnar Þór hefur starfað sem blaðamaður í nokkur ár, fyrst í sumarstarfi hjá Austurfrétt á Egilsstöðum árið 2015 og frá 2017 á Morgunblaðinu og mbl.is.
Hann er 29 ára, stjórnmálafræðingur að mennt og lauk meistaranámi frá Árósaháskóla áramótin 2018/2019. Arnar Þór var ráðinn úr stórum hópi umsækjenda í kjölfar þess að Kjarninn auglýsti eftir nýjum blaðamanni í síðasta mánuði, en hátt í hundrað umsóknir bárust vegna starfsins.
Auk þess að sinna almennri fréttavinnslu mun Arnar Þór hafa umsjón með enskri fréttaþjónustu Kjarnans, sem felur í sér útgáfu á annars vegar daglegu og hins vegar ítarlegra vikulegu fréttabréfi. Ensku fréttabréfin eru seld í áskrift. Hægt er að gerast áskrifandi hér.
Ritstjórnarstefna Kjarnans er að leggja áherslu á gæði og dýpt í umfjöllunum sínum. Að upplýsa almenning í stað þess að einblína á að skapa vefumferð. Þar er lögð áhersla á umfjöllun um alþjóðamál, innlenda þjóðmálaumræðu, viðskipti, efnahagsmál, stjórnmál og loftlags- og umhverfismál.
Lykillinn að því að gera þetta kleift er Kjarnasamfélagið, þar sem einstaklingar styrkja Kjarnann með mánaðarlegu framlagi. Hægt er að gerast styrktaraðili hér að neðan.