Fimm manns sóttu um embætti dómara við Hæstarétt Íslands. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins í dag. Þann 28. febrúar síðastliðinn auglýsti dómsmálaráðuneytið laust til umsóknar eitt embætti dómara við Hæstarétt Íslands og rann umsóknarfrestur út þann 16. mars 2020.
Skipað verður í embættið hið fyrsta eftir að dómnefnd um hæfni umsækjenda um dómaraembætti hefur lokið störfum, að því er fram kemur í tilkynningu Stjórnarráðsins.
Umsækjendur um embættið eru:
- Aðalsteinn E. Jónasson, dómari við Landsrétt
- Davíð Þór Björgvinsson, dómari við Landsrétt
- Jóhannes Sigurðsson, dómari við Landsrétt
- Sigríður J. Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari
- Sigurður Tómas Magnússon, dómari við Landsrétt
Áslaug Arna víkur sæti
Vegna skyldleika við umsækjandann Jóhannes Sigurðsson hefur dómsmálaráðherrann, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ákveðið að víkja sæti við meðferð þessa máls. Hefur forsætisráðuneytið þegar verið upplýst um það og þess farið á leit að forsætisráðherra hlutist til um að öðrum ráðherra verði falin meðferð málsins, segir á vef Stórnarráðsins.