Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur lagt fram frumvarp sem heimilar Vegagerðinni að gera samning við einkaaðila um samvinnuverkefni um ákveðnar samgönguframkvæmdir. Þær framkvæmdir sem um ræðir eru Sundabraut, tvöföldun Hvalfjarðarganga, Axarvegur og framvæmdir við hringveginn á nokkrum stöðum. Þeir eru norðaustan við Selfoss og brú á Ölfusá, um Hornarfjarðarfljót, um Mýrdal og jarðgöng í Reynisfjalli.
Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að markmið laganna sé að auka verulega fjármagn til vegaframkvæmda og mæta mikilli þörf fyrir fjárfestingar í samgöngum, bæta umferðaröryggi og stytta og bæta vegtengingar milli byggða. „Áætlað er að samvinnuverkefnin geti skapað allt að 4.000 ársverk. Undirbúningur frumvarpsins hefur staðið lengi og er í samræmi við tillögu að samgönguáætlun fyrir tímabilið 2020-2034.“
Heimila að leggja á veggjöld
Lykilatriði í frumvarpinu er að samkvæmt því verður heimilt að fjármagna samvinnuverkefni að hluta eða öllu leyti með gjaldtöku af umferð um mannvirki sem samvinnuverkefnið nær til. „Veggjöld geta í heild eða að hluta staðið straum af byggingarkostnaði, viðhaldi, rekstri, þróun og eðlilegum afrakstri af fjárfestingu mannvirkis. Gjaldtaka vegna notkunar tiltekins mannvirkis skal ekki hefjast fyrr en framkvæmd lýkur og opnað er fyrir almenna umferð. Gjaldtaka fyrir hvert mannvirki skal ekki standa lengur en í 30 ár.“
Ráðherra segir ávinning vera margvíslegan
Sigurður Ingi segir að það sé ljóst að jafn umfangsmiklar framkvæmdir, eins og samvinnuverkefnin boða, skapi mikinn fjölda ársverka, bæði hjá verktökum en ekki síður hjá ráðgjöfum og hönnuðum. „Áætla má að í heild verði til á bilinu 3.000-4.000 ársverk. Þau mynda einnig sterkan hvata til nýsköpunar sem getur lækkað kostnað og stytt framkvæmdatíma.“
Hann segir að öll verkefnin feli í sér styttingu vega ásamt því að stuðla að bættu umferðaröryggi. Vegastytting minnki ferðatíma fólks, dragi úr flutningskostnaði fyrir fyrirtæki og minnki losun gróðurhúsalofttegunda og annarrar umferðartengdrar mengunar.
„Samvinnuverkefnin bætast við allar vegaframkvæmdir sem fjármagnaðar eru með hefðbundnum hætti á fjárlögum en í nýjustu samgönguáætlun voru framlög aukin um fjóra milljarða á ári næstu fimm árin miðað við fyrri áætlanir,“ segir Sigurður Ingi.