Forsendur vantar enn til þess að hægt sé að spá fyrir um hvernig faraldur COVID-19 muni þróast hér innanlands, að sögn Ölmu D. Möller landlæknis. Hún vonast til þess að við séum á uppleið í „flatri kúrfu“ yfir fjölda smitaðra og býst við því að fjöldi veikra hér á landi fari að aukast, með tilheyrandi álagi á heilbrigðiskerfið.
Eins og ítrekað hefur komið fram skiptir gríðarlega miklu máli að kúrfan sem Alma ræðir um verði eins flöt og mögulegt er, en ekki brött eins og hún er orðin í ríkjum þar sem fjöldi greindra smita er nánast í veldisvexti.
Markmið heilbrigðisyfirvalda og stjórnvalda er að hægja á útbreiðslu veirunnar til að álag á heilbrigðiskerfið verði viðráðanlegt allan tímann á meðan faraldurinn gengur yfir.
Tölfræðingar og aðrir vísindamenn vinna að spá um þróun faraldursins hér á landi og þar til niðurstöður þeirra liggja fyrir er vissara að tala varlega um það hver mögulegur fjöldi smitaðra hér á landi gæti orðið, að sögn landlæknis.
Fimm á spítala og þar af tveir á gjörgæslu
Tvöhundruð og fimmtíu tilfelli COVID-19 hafa nú greinst hér á landi, aldrei fleiri en í gær, er 43 sýni greindust jákvæð, en hafa má í huga að mun fleiri sýni voru greind á sýkla- veirufræðideild Landspítala en fyrri daga, alls 545 talsins.
Fimm manns eru á Landspítala vegna veikinda sinna, þar af tveir á gjörgæslu, en þó ekki í öndunarvél, samkvæmt því sem fram kom á daglegum blaðamannafundi í samhæfingarstöðinni í Skógarhlíð í dag.
Níu einstaklingum er þegar batnað og hafa fengið þann formlega stimpil, að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis, en um er að ræða fólk sem hefur verið einkennalaust með öllu í heila viku. Þórólfur sagði að ekki væri þörf á að taka sýni úr fólki á ný í lok þessa einkennalausa tímabils til að ganga úr skugga um að það væri sannarlega laust við veiruna.
Sóttvarnalæknir ítrekaði á blaðamannafundinum að hér á landi væri verið að taka mjög mikið af sýnum, hlutfallslega miklu fleiri sýni en til dæmis á hinum Norðurlöndunum. Það þarf að hafa í huga þegar tölur yfir fjölda smitaðra hér eru túlkaðar, en víða er það svo að einungis þeir sem sýna það alvarleg einkenni veirunnar að þeir þurfi á spítalainnlögn að halda séu teknir í sýnatöku.
Hann telur sig geta sagt að útbreiðslunni hafi verið „nokkuð vel stjórnað“ hérlendis, sökum þess að ekki hefur orðið hlutfallsleg aukning í fjölda smita, en um 10 prósent allra sýna sem tekin eru af veirufræðideild Landspítala reynast jákvæð og innan við 1 prósent sýna sem tekin eru af Íslenskri erfðagreiningu. Um 6.500 sýni hafa alls verið tekin til þessa.
Allir í sóttkví þar sem sýkingin er víðast hvar í vexti
Aðgerðir stjórnvalda voru hertar í dag, en nú þurfa allir Íslendingar og aðrir sem búsettir eru á Íslandi að fara í tveggja vikna sóttkví við komuna til landsins, sama hvaðan þeir koma.
Þórólfur sagði að sú ákvörðun hefði verið tekin vegna þess að svo virðist sem sýkingin sé í „miklum vexti í flestum löndum“ en til umræðu hafi verið að einskorða sóttkví áfram við tiltekin ríki eins og áður hafði verið.
Auknar sóttvarnaráðstafanir hafa verið gerðar á Keflavíkurflugvelli vegna þessa og reynt er að halda fólki aðskildu þar innandyra eins og kostur er, þó það sé vissulega svo að allir sem þar eru séu á leiðinni í tveggja vikna sóttkví hvort sem er.