Forsætisnefnd hefur samþykkt að taka úr sambandi starfsáætlun Alþingis fyrir 150. löggjafarþing frá og með deginum í dag að telja og til og með 20. apríl fyrst um sinn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá skrifstofu Alþingis í dag.
Á þeim tíma verða eingöngu boðaðir þingfundir til að takast á við brýn mál sem tengjast COVID-19 heimsfaraldrinum. Brottfall starfsáætlunar þýðir einnig að komið getur til þingfunda á þeim tíma sem áður var reiknað með fundahléi um páska, en þá eingöngu af sömu ástæðum, þ.e. ef brýnt verður að grípa til ráðstafana vegna ástandsins og atbeina Alþingis þarf til, að því er fram kemur í tilkynningunni.
Enn fremur samþykkti forsætisnefnd að hefðbundin fundaáætlun fastanefnda væri tekin úr sambandi og eingöngu yrði boðað til nefndafunda í þeim nefndum sem þurfa að taka til umfjöllunar þingmál sem tengjast viðbrögðum við COVID-19 faraldrinum. Óski aðrar fastanefndir eftir sem áður eftir því að funda þurfi að sækja um það sérstaklega til forstöðumanns nefndasviðs og fá fyrir því samþykki forseta.
Forsætisnefnd færir viðbragðsteymi Alþingis og starfsfólki Alþingis öllu þakkir fyrir „ómetanleg störf við erfiðar aðstæður.“