Samkvæmt spálíkani sem vísindamenn frá Háskóla Íslands, embætti landlæknis og Landspítala hafa gert, um líklega þróun COVID-19 faraldursins á Íslandi, má búast við því að fyrir lok maímánaðar hafi um 1.000 manns á Íslandi greinst með COVID-19. Svartsýnustu spár gera ráð fyrir því að fjöldi greindra smita gæti þó orðið yfir 2.000 talsins á þeim tímapunkti.
Sóttvarnalæknir kallaði vísindamennina saman til þess að vinna spálíkanið, en því er ætlað að nýtast við ákvarðanatöku um viðbrögð og skipulag heilbrigðisþjónustu. Fyrstu niðurstöður þess voru kynntar á upplýsingafundi með yfirvöldum í gær, en líkanið hefur nú verið birt opinberlega á vefnum covid.hi.is og verður uppfært reglulega.
Alma Möller landlæknir sagði í sérstökum umræðuþætti um faraldurinn á RÚV í gærkvöldi að faraldurinn myndi sennilega ná hámarki í kringum 10. apríl næstkomandi. Á þeim tíma, verður fjöldi greindra einstaklinga með virkan sjúkdóm sennilega um 600 manns, en gæti þó náð 1.200 manns miðað við svartsýnustu spá.
Þá er búist við því að á meðan faraldurinn gengur yfir hérlendis þurfi að leggja um 60 sjúklinga inn á spítala, en svartsýnasta spá gerir þó ráð fyrir að sá fjöldi verði meira en þrefalt hærri, eða rúmlega 200 manns. Búist er við að álag á heilbrigðiskerfið verði mest um eða eftir miðjan apríl.
Samkvæmt spálíkaninu er búist við því að um 11 manns veikist alvarlega og þarfnist aðhlynningar á gjörgæslu, en svartsýnasta spá gerir þó ráð fyrir því að 50 manns gætu þurft að leggjast inn á gjörgæslu.
„Greiningarvinnan mun halda áfram og spálíkanið verður uppfært reglulega með nýjum upplýsingum. Hafa ber í huga að vegna fámennis geta tölurnar um fjölda greindra tilfella breyst mikið frá degi til dags sem hefur áhrif á niðurstöður spálíkansins. Líkanið verður þó stöðugra eftir því sem á líður,“ segir í þessum fyrstu niðurstöðum vísindamannanna.