Bandalag háskólamanna (BHM) skorar á vinnuveitendur að taka tillit til foreldra leik- og grunnskólabarna sem ekki geta sinnt störfum sem skyldi vegna skertrar kennslu í skólum landsins vegna COVID-19. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá BHM.
Þá segir að margir foreldrar reyni að sinna fjarvinnu ásamt því að annast heimakennslu barna sinna. Það gefi augaleið að slíkt geti reynst flókið og umönnun yngstu barnanna þurfi að njóta forgangs á heimilinu. Við þessar aðstæður hafi launafólk neyðst til að ganga á orlofsrétt sinn og jafnvel taka launalaust leyfi frá vinnu. Að mati BHM er það óviðunandi.
„BHM biðlar því til stjórnenda fyrirtækja og stofnana að koma til móts við það starfsfólk sem glímir við þessar aðstæður og greiða því full laun meðan samkomubann gildir hér á landi. Með því móti sýna atvinnurekendur samfélagslega ábyrgð í verki.
Öll getum við lagst á eitt um að létta þessar vikur fyrir fólkið, fyrirtækin og heimilin í landinu. Þegar það versta er yfirstaðið verður gott að geta litið um öxl fullviss um að allt hafi verið gert til að tryggja atvinnuöryggi, rekstur fyrirækja og almenna velferð landsmanna á tímum COVID-19 heimsfaraldursins,“ segir í yfirlýsingunni.