Vegna þeirra þrenginga sem blasa við vegna heimsfaraldurs COVID-19 vilja íslensk stjórnvöld koma til móts við fyrirtæki og launþega með hlutabótum. Fyrirtækjum í rekstrarvanda verður þannig gert kleift að lækka starfshlutfall hjá launafólki tímabundið og viðhalda þar með ráðningarsambandi á meðan erfiðustu mánuðirnir ganga yfir.
Hér að neðan má finna svör við algengum spurningum sem kunna að vakna vegna breytts starfshlutfalls fólks á íslenskum vinnumarkaði. Upplýsingarnar eru fengnar af vef stjórnarráðsins.
Hvað eru hlutabætur?
Hlutabætur eru atvinnuleysisbætur sem launafólk getur sótt um hjá Vinnumálastofnun (https://www.vinnumalastofnun.is/) ef atvinnurekandi hefur óskað eftir minnkuðu starfshlutfalli vegna þess efnahagsástands sem nú ríkir. Viðkomandi fær þá greiddar hlutabætur á móti launum hjá atvinnurekanda.
Hvenær á ég rétt á hlutabótum?
Þegar starfshlutfall er minnkað að frumkvæði vinnuveitanda um a.m.k. 20% vegna samdráttar í starfsemi. Gert er að skilyrði að launþegi haldi að lágmarki 25% starfshlutfalli hjá vinnuveitanda.
Ákveði launþegi sjálfur að minnka starfshlutfall sitt á hann ekki rétt til hlutabóta.
Ef starfshlutfall mitt var minnkað fyrir gildistöku laganna – á ég þá ekki rétt á bótum?
Ef skilyrði laganna eru að öðru leyti uppfyllt gilda þau jafnframt um þá aðila sem fóru í minnkað starfshlutfall að beiðni vinnuveitenda fyrir gildistöku laganna.
Hversu háum greiðslum á ég rétt á ef ég fer í minnkað starfshlutfall?
Þeir sem fara niður í allt að 25% starfshlutfall munu eiga rétt á hlutaatvinnuleysisbótum á móti þeim launum sem þeir fá frá vinnuveitanda fyrir hlutastarfið.
Greiðsla til einstaklings sem er færður úr 100% starfshlutfalli í 50% verður þá 50% af 456.404 krónum eða 228.202 krónur ásamt 11,5% mótframlagi í lífeyrissjóð.
Þetta er með þeim fyrirvörum að laun frá vinnuveitanda og greiðslur atvinnuleysisbóta samanlagt geta ekki numið hærri fjárhæð en 700.000 krónum á mánuði og skulu ekki nema hærri fjárhæð en 90% af meðaltali heildarlauna launamanns.
Laun undir 400.000 krónum á mánuði, miðað við fullt starf, skerðast ekki.
Heildarlaun einstaklings geta ekki hækkað við það að fara í lægra starfshlutfall.
Dæmi I: Launamaður í 100% starfi hefur 400 þúsund krónur í mánaðarlaun en vinnuveitandi ákveður að minnka starfshlutfall hans um 75% vegna erfiðleika í rekstri. Þessi einstaklingur sækir um 75% atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun og vinnuveitandi greiðir honum 25% laun. Hann fær því 100 þúsund frá vinnuveitanda og 300 þúsund frá Vinnumálastofnun. Laun hans og atvinnuleysisbætur munu þá samanlagt jafngilda þeim launum sem hann hafði áður en hann fór í hið minnkaða starfshlutfall, eða 400 þúsund krónur á mánuði.
Dæmi II: Launamaður í 100% starfi hefur 600 þúsund krónur í mánaðarlaun en vinnuveitandi ákveður að minnka starfshlutfall hans um 50% vegna erfiðleika í rekstri. Þessi einstaklingur sækir um 50% atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun. Hann fær því 300 þúsund krónur frá vinnuveitenda og 228 þúsund frá Vinnumálastofnun. Laun hans og atvinnuleysisbætur munu þá samanlagt nema 528 þúsund á mánuði eða 84% af heildarlaunum.
Dæmi III: Launamaður í 100% starfi hefur 900 þúsund krónur í mánaðarlaun en vinnuveitandi ákveður að minnka starfshlutfall hans niður í 60% vegna erfiðleika í rekstri. Þessi einstaklingur sækir um 40% atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun. Hann fær því 540 þúsund krónur frá vinnuveitenda og 160 þúsund frá Vinnumálastofnun. Laun hans og atvinnuleysisbætur munu þá samanlagt nema 700 þúsund á mánuði eða tæpum 80% af heildarlaunum.
Dæmi IV: Launamaður í 50% starfi hefur 250 þúsund krónur í mánaðarlaun en vinnuveitandi ákveður að minnka starfshlutfall hans um helming vegna erfiðleika í rekstri. Þessi einstaklingur sækir um 25% atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun. Hann fær því 125 þúsund frá vinnuveitenda og 114 þúsund frá Vinnumálastofnun. Við þetta lækkar viðkomandi í heildartekjum en ekki vegna skerðingar bóta - hann fær óskert 25% af hámarkstekjutengingu atvinnuleysisbóta þar sem hann er með laun undir 400 þúsund krónum.
Ég er í hlutastarfi. Fæ ég greiðslur?
Já. Sömu reglur gilda um einstaklinga í hlutastarfi við útreikninga á hlutaatvinnuleysisbótum.
Ég er sjálfstætt starfandi. Fæ ég greiðslur?
Já, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum – þ.e. sjálfstætt starfandi þurfa að hafa tilkynnt um verulegan samdrátt í rekstri og breytingu á reiknuðu endurgjaldi til launagreiðendaskrár Skattsins.
Ég er námsmaður. Fæ ég greiðslur?
Já, námsmenn sem uppfylla önnur skilyrði ákvæðisins eiga rétt til hlutabóta.
Skerðist réttur minn til atvinnuleysisbóta ef ég fer á hlutabætur og missi vinnuna í kjölfarið?
Nei. Greiðslur hlutaatvinnuleysisbóta skerða ekki áunnin réttindi samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.
Verður eitthvað eftirlit með þeim fyrirtækjum sem nýta úrræðið?
Vinnumálastofnun er heimilt að óska eftir upplýsingum og gögnum frá vinnuveitanda þar sem fram komi nánari rökstuðningur fyrir samdrætti í starfseminni, svo sem fækkun verkefna eða samdráttur í þjónustu.
Ef fyrirtæki sem ég vinn hjá verður gjaldþrota í kjölfar minnkaðs starfshlutfalls á ég þá minni rétt til greiðslna úr Ábyrgðarsjóði launa?
Nei. Í tilvikum þegar starfshlutfall launamanns hefur verið lækkað að kröfu vinnuveitanda vegna samdráttar í starfsemi hans verður miðað við tekjur launamannsins líkt og þær voru áður en starfshlutfall var lækkað, við útreikning á kröfum.