Íslensk stjórnvöld hafa í samstarfi við Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins tryggt að einstaklingum í sóttkví séu tryggð laun á meðan hún varir, en á þeim tíma eiga önnur réttindi, svo sem veikindaréttur samkvæmt kjarasamningum ekki við.
Á þetta við um tímabilið 1. febrúar 2020 til og með 30. apríl 2020 og er miðað við að þetta taki til þeirra sem ekki geta sinnt starfi sínu úr sóttkví. Gert er ráð fyrir að atvinnurekandi greiði launþega laun en geti svo gert kröfu á ríkissjóð til endurgreiðslu upp að vissri hámarksfjárhæð.
Það sama gildir um sjálfstætt starfandi einstaklinga hafi þeir þurft að leggja niður störf vegna sóttkvíar á framangreindu tímabili.
Hér að neðan er að finna svör við spurningum sem kunna að vakna vegna launa í sóttkví. Þau eru fengin af vef stjórnarráðsins.
Hversu háar greiðslur fæ ég ef ég sæti sóttkví og get ekki unnið?
Greiðslur taka mið af heildarlaunum í þeim almanaksmánuði eða almanaksmánuðum sem einstaklingur er í sóttkví. Greiðslurnar verða aldrei hærri en 633.000 krónur á mánuði, eða 21.100 krónur á dag.
Ég er sjálfstætt starfandi. Fæ ég greiðslur?
Já. Greiðslur til sjálfstætt starfandi einstaklinga sem sæta sóttkví taka mið af 80% af mánaðarlegum meðaltekjum árið 2019. Greiðslur nema að hámarki 633.000 krónur á mánuði eða 21.100 krónur á dag.
Meðaltekjurnar taka mið af meðaltali þess reiknaða endurgjalds sem myndaði stofn til tryggingagjalds á tekjuárinu 2019.
Hvaða rétt hef ég í sjálfskipaðri sóttkví?
Ákvörðun um sóttkví er tekin á grundvelli sóttvarnarlaga af viðeigandi yfirvöldum. Einstaklingar í sjálfskipaðri sóttkví eiga ekki rétt á greiðslum.