Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er komin í einangrun heima hjá sér þar til niðurstöður úr sýnatöku vegna kórónuveirunnar verða ljósar. Sonur hennar er í Melaskóla en nokkrir bekkir skólans voru sendir í sóttkví í gær.
Katrín greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni og segir að í kjölfar þess að nemendur í nokkrum bekkjum Melaskóla hefðu verið sendir í sóttkví hafi eiginmaður hennar og yngsti sonurinn ákveðið að flytja út af heimilinu.
„Í kjölfarið var ákveðið að ég færi í sýnatöku vegna kórónuveiru. Þar var ég beðin um að halda mig heima þar til niðurstaða kæmi úr þeirri sýnatöku. Þar sem ég hef verið dugleg að segja öllum að fylgja leiðbeiningum heilbrigðisyfirvalda þá geri ég það að sjálfsögðu líka – en það er ástæðan fyrir því að ég mætti ekki í óundirbúnar fyrirspurnir í morgun (en einhverjir fjölmiðlar hafa sent mér fyrirspurnir um það). Við erum nefnilega öll almannavarnir og getum öll lagt okkar af mörkum til að hemja útbreiðslu veirunnar.“
Umhverfisráðherra í sóttkví og þingmaður greindur með COVID-19
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra er einnig kominn í sóttkví eftir að samstarfskona hans í ráðuneytinu greindist með kórónuveiruna. Smitrakningarteymið hafði samband við Guðmund Inga í gær. „Ég hef ekki fundið fyrir neinum einkennum og líður vel,“ skrifar hann á Facebook-síðu sína.
Þá hefur Smári McCarthy, þingmaður Pírata greinst með COVID-19. Hann greinir frá því á Facebook að hann hafi farið í sjálfskipaða sóttkví fyrir viku eftir að hafa farið að hósta. Á föstudag hafi hann svo farið í sýnatöku og hún reyndist jákvæð. Smári segist „þokkalega hress“ og að hann finni fyrir vægum einkennum.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, greindi frá því í morgunútvarpi RÚV í morgun að það væru dæmi um að ráðherrar í ríkisstjórn hefðu látið prófa sig til að kanna hvort að þeir væru með COVID-19. Öll ríkisstjórnin væri hins vegar ekki búin að því.
Kæru vinir! Nokkrir bekkir í Melaskóla voru sendir í sóttkví í gær eins og kom fram í fréttum. Yngsti drengurinn minn er...
Posted by Katrín Jakobsdóttir on Monday, March 23, 2020