Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, er á meðal þeirra fimm sem bjóða sig fram til stjórnarsetu í Kviku banka á næsta aðalfundi hans sem haldinn verður 26. mars næstkomandi, eða á fimmtudag.
Sjálfkjörið verður í stjórnina en fimm framboð bárust í fimm sæti í henni.
Kristín Pétursdóttir, sem verið hafði stjórnarformaður Kviku banka síðastliðin tvö ár, ákvað fyrr í mánuðinum að gefa ekki áfram kost á sér. Aðrir stjórnarmenn Kviku sækjast eftir endurkjöri en þeir eru Guðmundur Þórðarson, sem er jafnframt varaformaður stjórnar, Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs hjá Sýn, Inga Björg Hjaltadóttir lögmaður og Guðjón Reynisson, fjárfestir og fyrrverandi forstjóri bresku leikfangaverslunarkeðjunnar Hamleys.
Auk þeirra sækist, líkt og áður sagði, Sigurður Hannesson eftir stjórnarsetu og er eini nýi aðilinn sem það gerir. Hann mun því taka sæti í stjórninni á fimmtudag.
Sigurður starfaði lengi innan bankakerfisins. Hann starfaði við markaðsviðskipti hjá Straumi fjárfestingabanka á árunum 2007-2010 og sem framkvæmdastjóri Júpíters rekstrarfélags, sem nú er í eigu Kviku banka, á árunum 2010-2013.
Á árunum 2013-2017 starfaði hann sem framkvæmdastjóri á eignastýringarsviði hjá MP banka, sem nú heitir Kvika banka. Árið 2015 var hann varaformaður framkvæmdahóps stjórnvalda um losun fjármagnshafta og árið 2013 formaður sérfræðingahóps um aðgerðir í þágu skuldsettra heimila, sem leiddi af sér Leiðréttinguna svokölluðu. Undanfarin ár hefur hann starfað sem framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Sigurður var á meðal þeirra sem sóttust eftir því að verða seðlabankastjóri þegar staðan var auglýst laus til umsóknar í fyrra. Þá var Ásgeir Jónsson ráðinn.
Sigurður situr í stjórnum Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, Auðna-Tæknitorg ehf., Klak innovit ehf., Akkur SI, Sundaboginn slhf., Íslenski byggingarvettvangurinn, Seapool ehf., og BBL 39 ehf.
Hann er, samkvæmt tilkynningu, eigandi 8.550.107 hluta í Kviku í gegnum einkahlutafélögin Seapool ehf. og BBL 39 ehf.