Samkvæmt upplýsingum um brottfarir á vef Keflavíkurflugvallar munu einungis þrjár flugvélar halda út í heim á morgun, fimmtudag. Öllum öðrum flugferðum hefur verið aflýst.
Hjá Icelandair eru ákvarðanir um flugáætlunina teknar dag frá degi og „það liggur ekki ljóst fyrir núna hvaða flug verða flogin næstu daga,“ samkvæmt svari Ásdísar Ýrar Pétursdóttur upplýsingafulltrúa flugfélagsins við fyrirspurn Kjarnans.
Ásdís Ýr segir áreiðanlegustu upplýsingarnar um flugáætlunina að finna á vef Icelandair, en breytingar geti því miður átt sér stað með mjög skömmum fyrirvara. Hún segir að flugfélagið leggi sig fram við að hafa samband við þá farþega sem verða fyrir áhrifum af breytingum um leið og ákvarðanir liggja fyrir.
Í dag flaug Icelandair einungis til London og Boston, auk þess sem flugvél sneri til baka frá Toronto í Kanada. Þetta eru einungis 11% af venjulegri áætlun félagsins. Engin flug eru þannig á áætlun til og frá meginlandi Evrópu, en flogið hefur verið til og frá Amsterdam undanfarna daga.
Flugferðum til og frá Íslandi hefur farið fækkandi dag frá degi og útlit er fyrir að það gæti raungerst, sem utanríkisráðuneytið varaði Íslendinga erlendis við á dögunum, að flugsamgöngur til og frá landinu leggist af fyrir mánaðamót. Utanríkisráðuneytið ítrekaði þessi skilaboð til Íslendinga á erlendri grundu í dag.
#Ferðaráð vegna #COVID19 heimsfaraldursins eru aðgengileg á vef Stjórnarráðsins 🗺️
— Utanríkisráðuneytið (@utanrikisthjon) March 25, 2020
🇮🇸 stjórnvöld hvetja Íslendinga á ferðalagi erlendis til að íhuga að flýta heimför.
➡️ Ég er á ferðalagi, hvað á ég að gera ef ég er strandaglópur erlendis ❓
🔗👉 https://t.co/lSbeEX0X0U pic.twitter.com/8xpiAT6LBI
Tvær til London og ein til Boston
Í fyrramálið fer, samkvæmt áætlun á vef Keflavíkurflugvallar, eitt flug Icelandair til Heathrow-flugvallar í London að morgni. Í hádeginu fer svo vél á vegum British Airways sömu leið og síðdegis er flug Icelandair til Boston á áætlun.
Þar með er það upptalið og eru brottfarir á áætlun frá Keflavíkurflugvelli því einungis tveimur fleiri en brottfarirnar sem áætlaðar eru frá flugvellinum á Vopnafirði á morgun, eins og vopnfirski hagfræðingurinn Konráð S. Guðjónsson bendir á.
Á morgun verða brottfarir frá Keflavíkurflugvelli einungis 2 fleiri en frá Vopnafjarðarflugvelli pic.twitter.com/K0LrxH8gyH
— Konráð S. Guðjónsson (@konradgudjons) March 25, 2020
Æ erfiðara að finna greiða leið heim
Margir Íslendingar eru þó enn staddir erlendis, alls að minnsta kosti 4.500 manns sem hafa skráð sig í gagnagrunn borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins.
Borgaraþjónustan svaraði 900 erindum frá fólki sem statt er erlendis dagana 20.-23. mars og eru fyrirspurnirnar að verða flóknari viðureignar, samkvæmt því sem fram kom í stöðuskýrslu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra í gær.
„Töluvert hefur borið á því að Íslendingar eigi í erfiðleikum með að finna greiða leið heim vegna landamæralokana og hertra skilyrða fyrir millilendingum,“ sagði þar, en unnið er með hinum Norðurlöndunum við að fylgjast með flugframboði og kortleggja hvar Norðurlandabúar eru niður komnir, „sem gæti þurft að sækja ef þeir verða alveg innlyksa.“
Af þeim um það bil 4.500 Íslendingum í grunni borgaraþjónustunnar sem enn eru erlendis eru tæplega þúsund manns með áætlaða heimför fyrir mánaðamót, um þúsund manns með áætlaða heimför á næstu tveimur mánuðum en um 2.500 manns ekki með áætlaða heimför, sem bendir til þess að þessi hópur dvelji langdvölum erlendis.
Margir enn staddir á Spáni
Samkvæmt því sem fram kom í stöðuskýrslunni í gær eru langflestir Íslendingar erlendis staddir á Spáni, enn um 1.500 manns, samkvæmt grunni borgaraþjónustunnar, en þó er tekið fram að einhverjir þeirra gætu hafa flýtt heimför án þess að láta borgaraþjónustuna vita.
Icelandair tilkynnti síðdegis í dag að flugferð yrði farin frá Alicante á Spáni á föstudag. Ásdís Ýr segir að eftirspurnin eftir fluginu sé góð, en tómri vél verður flogið út og farþegar ferjaðir til baka.