Staðfest smit af kórónuveirunni eru nú orðin 737 hér á landi. Í gær voru þau 648 og hefur þeim því fjölgað um 89 á einum sólarhring. Í dag eru 9.013 manns í sóttkví en í gær var fjöldinn 8.205.
Tæplega 2.200 manns hafa lokið sóttkví.
Nú liggja 11 á sjúkrahúsi vegna COVID-19 sjúkdómsins. Á síðunni Covid.is kemur fram að 56 hafi náð sér af sjúkdómnum. Flest smitin eru svokölluð innanlandssmit. Smit af óþekktum uppruna eru 194.
Nú hafa flest smit greinst í aldurshópnum 40-49 ára eða 182. Hjá hópnum 50-59 ára hafa 136 smit verið greind og 128 hjá fólki á aldrinum 30-39 ára.
Fleiri sýnatökur í gær en fyrradag
Í dag hafa 11.727 sýni verið tekin frá upphafi faraldursins. Síðasta sólarhringinn voru 967 sýni tekin, 460 hjá Íslenskri erfðagreiningu og 507 hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítalans.
Færri sýni hafa verið tekin síðustu daga vegna yfirvofandi skorts á sýnatökupinnum sem nauðsynlegir eru til rannsóknanna. Sýnatökupinnar sem stoðtækjafyrirtækið Össur á á lager og til skoðunar var að nota við sýnatökur vegna nýju kórónuveirunnar reyndust ekki uppfylla öryggiskilyrði.
Enn er því beðið eftir sendingu af pinnum að utan.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur varað við því að draga of miklar ályktanir af tölum smita dag frá degi. Á mánudag greindust t.d. aðeins 20 smit. Í dag eru þau tæplega nítíu. Fleiri sýni voru tekin í dag en þrjá dagana þar á undan og nú er Íslensk erfðagreining aftur farin að taka sýni. Aðeins eitt smit greindist þar af um 460 sýnum sem voru tekin í gær og morgun.
Ýmislegt getur skýrt sveiflu í staðfestum smitum milli daga, m.a. fjöldi sýnataka. Þá getur fámennið og möguleg hópsmit einnig haft áhrif á tölurnar.
Þórólfur hefur á upplýsingafundi almannavarna undanfarið sagt að faraldurinn sé í vexti og að það hafi verið viðbúið á þessum tímapunkti.
Samkvæmt spálíkani sem uppfært var í fyrradag er búist er við því að fyrir lok apríl hafi líklega um 2.500 manns á Íslandi verið greindir með COVID-19, en talan gæti náð tæplega 6.000 manns samkvæmt svartsýnustu spá.
Af þeim sem greinst hafa með Covid-19 á Íslandi eru tvö látin. Á mánudag lést rúmlega sjötug kona á Landspítalanum. Hún hafði undirliggjandi sjúkdóm. Konan er fyrsti Íslendingurinn sem deyr úr COVID-19. Fyrir rúmri viku lést ástralskur ferðamaður á heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík.