Isavia sagði í dag upp 101 starfsmanni og bauð 37 starfsmönnum sínum áframhaldandi starf í minnkuðu starfshlutfalli til framtíðar. Samkvæmt tilkynningu frá fyrirtækinu verða flestar uppsagnirnar á Keflavíkurflugvelli, þar sem ljóst er að verkefnum muni fækka um óákveðinn tíma.
Hagræðingaraðgerðir fyrirtækisins í dag ná til rúmlega 10 prósent starfsmanna, en samkvæmt því sem fram kemur á vef Isavia störfuðu 1.255 manns hjá ríkisfyrirtækinu í lok árs 2018.
„Við komumst því miður ekki hjá því að grípa til uppsagna, en þær ná eingöngu til starfa á sviðum þar sem verkefnum fækkar í óákveðinn tíma,“ er haft eftir Sveinbirni Indriðasyni forstjóra Isavia í fréttatilkynningu, en hann segir fyrirtækið telja mikilvægt að „svara ákalli stjórnvalda um að þau fyrirtæki, sem það geti, standi vörð um störfin í landinu.“
„Við erum í þeirri stöðu að lausafjárstaðan okkar er betri en hún hefur nokkru sinni verið þannig að okkar fyrstu viðbrögð taka mið af því,“ segir Sveinbjörn. Hann segir áhrifin af samdrættinum vegna heimsfaraldursins hafa mest áhrif á framlínustörf á Keflavíkurflugvelli, meðal annars í flugvernd, farþegaþjónustu og bílastæðaþjónustu, en að Isavia bíði mörg verkefni sem snúi meðal annars að því að byggja upp innviði félagsins.
„Við þurfum þó að vera meðvituð um það að óvissan næstu mánuði er veruleg og við munum endurskoða stöðuna með reglubundnum hætti. Við þurfum með öllum ráðum að tryggja að aðgangur félagsins að lausu fé dugi þar til hjólin fara að snúast á ný. Við þökkum öllu því góða fólki sem nú er að hverfa frá fyrirtækinu fyrir þeirra störf og óskum þeim jafnframt velfarnaðar,“ segir Sveinbjörn.
Nýta sér ekki hlutabótaúrræði stjórnvalda
Fram kemur í tilkynningu Isavia að hvorki móðurfélagið né dótturfélög þess muni nýta sér hlutabótaúrræði stjórnvalda vegna tímabundins samdráttar.
„Þær uppsagnir sem ráðist er í núna eru til að bregðast við minnkandi umsvifum til langs tíma en úrræði stjórnvalda eru fyrst og fremst til að bregðast við skammtímaáhrifum faraldursins. Fríhöfnin mun nýta úrræði stjórnvalda sem gerir félaginu kleift að ráðast ekki í uppsagnir á fastráðnum starfsmönnum sínum,“ segir í tilkynningunni.