Tíu liggja nú á gjörgæslu Landspítalans með COVID-19. Sex þeirra eru í öndunarvél. Sex sjúklingar á Landakoti eru sýktir og þeir eru allir á tíræðisaldri. 66 ný smit greindust hér á landi síðasta sólarhringinn.
Þetta er meðal þess sem fram kom á daglegum upplýsingafundi almannavarna í dag.
„Faraldurinn er í tiltölulega hægum línulegum vexti, ekki veldisvexti,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Vöxturinn fylgir spálíkani vísindamanna Háskóla Íslands hvað fjölda smita varðar. Hvað varðar fjölda alvarlegra veikra sem þurfa innlögn á gjörgæslu er hann hins vegar að fylgja svartsýnustu spá enn sem komið er.
Þórólfur nefndi tvennt sem styður það að aðgerðir hér á landi hafi skilað árangri; að um helmingur allra nýgreindra er þegar í sóttkví og að enn greinast fá smit hjá Íslenskri erfðagreiningu sem bendi til að smit úti í samfélaginu sé lítið.
„Það er alveg ljóst að okkur hefur tekist að sveigja vöxtinn á þessari veiru af leið og niður,“ sagði Þórólfur. Í mörgum öðrum löndum sé vöxturinn hins vegar mjög mikill. „Við getum verið nokkuð ánægð með þennan árangur“ sem hafi náðst með því að grípa til nokkuð harðra aðgerða frá fyrsta smiti.
Þórólfur sagði að landsmenn þyrftu að undirbúa sig undir það að aðgerðir sem gripið hefur verið til, s.s. samkomubann, verði framlengdar. Ekki væri búið að taka ákvörðun um hvenær þeim verði aflétt en nokkuð ljóst væri að það þurfi að gera mjög hægt og varlega. Ef það gerist of hratt gæti það skapað hættu á því að faraldurinn blossi upp aftur, sérstaklega á meðan smit eru útbreidd annars staðar í heiminum. Þetta verður, að sögn Þórólfs, okkar mesta áskorun næstu vikur og mánuði. „Við getum lent í öðrum faraldri ef við pössum okkur ekki,“ sagði hann.
Ekki væri á þessari stundu fyrirhugað að grípa til hertari aðgerða. Spurður hvort að til greina kæmi að hætta að beita sóttkví sagði Þórólfur það „alls ekki“ standa til. Þvert á móti hefði sýnt sig að sú aðgerð væri að skila árangri. „Við erum að ná fólki sem hugsanlega hefur smitast og koma í veg fyrir að fólk smiti út frá sér.“
Ekki vitað hvernig smit barst á Landakot
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, sagði á fundinum að á Landspítalanum væru 30 sjúklingar með staðfest COVID-19 smit. Starfsmenn Landspítalans eru svo margir í sóttkví eða 268 og 38 eru í einangrun.
Hann greindi einnig frá því að búið væri að bæta við rúmum á gjörgæsludeildina í Fossvogi. Þar eru venjulega sex rúm en þeim hefur verið fjölgað í átján.
Hvað öldrunardeildina á Landakotsspítala varðar, þar sem sex sjúklingar eru með staðfest COVID-19 smit, sagði hann að ekki væri vitað til þess að sjúklingur hefði sýkt starfsmann en spurningin væri hvort að starfsmaður hefði smitað sjúkling. Reynt hafi verið að komast að því með ítarlegri smitrakningu. Það hafi ekki tekist „Okkar mat er að það er ómögulegt að komast nákvæmlega til botns í því hvað var til þess að sýking byrjaði á Landskoti.“