Þorbjörg Marinósdóttir, einnig þekkt sem Tobba Marinós, hefur verið ráðin nýr ritstjóri DV. Frá þessu er greint á vef DV.
Þar er haft eftir henni að vilji sé til þess að DV verði „léttur og skemmtilegur miðill sem segi harðar fréttir í bland en sé umfram allt með vönduð efnistök.“ Ristjórnarstefna DV verði hins vegar löguð að ritstjórnarstefnu Torgs, fjölmiðlafyrirtækisins sem nýverið keypti útgáfuna, og það fela í sér nokkrar breytingar.
Pappírsútgáfa DV, sem hefur komið út einu sinni í viku á föstudögum, verður viðhaldið. Hlé verður hins vegar gert á pappírsútgáfunni meðan unnið verður að breytingum útlits og efnistaka.
Kjarninn greindi frá því í gær að Lilja Katrín Gunnarsdóttir væri hætt störfum sem ritstjóri DV og að nýr ritstjóri yrði kynntur til leiks fljótlega. Alls var á annan tug starfsmanna Frjálsrar fjölmiðlunar, útgáfufélags DV, jafnt blaðamönnum sem sölumönnum, sagt upp störfum.
Fimmtudagskvöldið 13. desember síðastliðinn greindi Kjarninn frá því að Torg væri að kaupa DV og tengda miðla af Frjálsri fjölmiðlun. Útgáfufélögin staðfestu svo kaupin daginn eftir.
Botnlaust tap
Frjáls fjölmiðlun hóf starfsemi í september 2017. Félagið keypti þá fjölmiðla Pressusamstæðunnar: DV, DV.is, Eyjuna, Pressuna, Bleikt, Birtu, Doktor.is, 433.is og sjónvarpsstöðina ÍNN. ÍNN var síðar sett í þrot.
Skráður eigandi að öllu hlutafé í Frjálsri fjölmiðlun er félagið Dalsdalur ehf. Eigandi þess er skráður lögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson.
Á fyrstu fjórum mánuðum starfseminnar tapaði félagið 43,6 milljónum króna. Á síðasta ári jókst tapið umtalsvert og var um 240 milljónir króna. Samtals tapaði fjölmiðlasamstæðan því 283,6 milljónum króna á 16 mánuðum.
Samkvæmt ársreikningi Frjálsrar fjölmiðlar skuldaði samstæðan 610,2 milljónir króna í lok árs 2018. Þar af voru langtímaskuldir 506,7 milljónir króna og voru að nánast öllu leyti við eigandann, Dalsdal.
Eina eign Dalsdals er Frjáls fjölmiðlun og skuld þess við félagið.
Ekki hefur verið greint frá því hver það er sem fjármagnar Dalsdal í ársreikningnum.
Síðastliðinn föstudag var Frjáls fjölmiðlun dæmd til að greiða Fjárfestingafélaginu Dalnum, í eigu Halldórs Kristmannssonar sem á fjölmiðlafyrirtækið Birting, 15 milljónir króna.