Staðfest smit af kórónuveirunni eru orðin 1.220 hér á landi. Í gær voru þau 1.135 og hefur þeim því fjölgað um 85 á einum sólarhring.
Í dag eru 7.822 einstaklingar í sóttkví og hefur þeim fækkað umtalsvert frá því í gær er fjöldinn var 8.879. Rúmlega 7.700 manns hafa nú lokið sóttkví.
Nú liggur 41 sjúklingur á sjúkrahúsi vegna COVID-19 sjúkdómsins, þar af tólf á gjörgæslu, samkvæmt því sem fram kemur á síðunni covid.is. Ellefu eru á gjörgæslu í Reykjavík og einn á Akureyri.
Alls hafa 236 hafi náð sér af sjúkdómnum til þessa, en af þeim sem greinst hafa með COVID-19 á Íslandi eru tvö látin.
Alls 19.516 sýni verið greind hér á landi frá upphafi faraldursins. Í gærdag voru 797 sýni greind hjá Íslenskri erfðagreiningu og 815 hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítalans.
Hlutfall smitaðra sem greinst hafa á meðan þeir eru í sóttkví er 54%. Þetta hefur sóttvarnalæknir sagt sýna nauðsyn sóttkvíar sem úrræðis til að hemja útbreiðslu faraldursins.
Búist við mestu álagi fyrir miðjan mánuð
Í spálíkani vísindamanna við Háskóla Íslands sem síðast var uppfært í fyrradag, kemur fram að á meðan faraldurinn gangi yfir muni rúmlega 1.700 manns á Íslandi greinast með COVID-19 sjúkdóminn, en talan gæti náð nær 2.800 manns samkvæmt svartsýnni spá.
Þá er í nýjustu spánni gert ráð fyrir að fjöldi greindra einstaklinga með virkan sjúkdóm nái hámarki í fyrstu viku þessa mánaðar og verði sennilega um 1.200 manns, en gæti viku seinna náð 1.800 manns samkvæmt svartsýnni spá.