Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra sagði í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag að framkvæmd hefðu verið nokkur ólík tímabundið átök á Landspítalanum til að bæta kjör hjúkrunarfræðinga á spítalanum. Hann sagði að það hefði verið óheppilegt að einu slíku hefði verið að ljúka núna þegar COVID-19 faraldurinn stendur yfir – því það komi út sem launalækkun.
Sóley Halldórsdóttir, hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum, skrifaði stöðuuppfærslu á Facebook í gær sem vakið hefur mikla athygli. Þá greindi hún frá því að laun hennar hefðu lækkað um 41 þúsund krónur í gær þar sem vaktaálagsauki hefði verið tekinn af hjúkrunarfræðingum um þessi mánaðamót.
„Ég var að koma heim úr frábæru og gefandi vinnunni minni á gjörgæslunni í Fossvogi, starfinu mínu sem ég elska! Vaktin var sérlega strembin í dag, ég sinnti tveimur sjúklingum með covid19 í öndunarvél ásamt því að leiðbeina frábærum bakverði sem kominn er til að aðstoða á erfiðum tímum. Ég var klædd í hlífðarfatnað í 7,5 klst með tilheyrandi óþægindum til að forðast smit. Á morgun ætla ég að vinna aukalega morgunvakt og næturvakt vegna erfiðra aðstæðna á deildinni (eitthvað sem allir sem vinna þar gera við þessar aðstæður). Og hjúkrunarfræðingar eru samningslausir ... og já og launin mín lækkuðu um 41 þúsund krónur í dag. Það hlýtur einhver að segja bráðum við mig og samstarfsfólk mitt 1. apríl ... eða ekki,“ skrifar Sóley.
Ég vildi óska þess að launaseðillinn minn í dag væri 1. aprílgabb! Launin mín lækkuðu um 41 þúsund krónur í dag þar sem...
Posted by Sóley Halldórsdóttir on Wednesday, April 1, 2020
Segir samningaviðræður hafa skilað miklu
Bjarni sagði á Alþingi í dag að allan tímann hefði verið ljóst að um tímabundið átak væri að ræða „og verkefnið núna er að búa þannig um kjarasamningsgerðina að allir hjúkrunarfræðingar geti notið góðs af stöðunni og fengið þegar uppi er staðið betri kjör.“
Fram kom í máli ráðherrans að ríkið hefði verið í viðræðum við hjúkrunarfræðinga frá því áður en samningarnir urðu lausir. „Samningslotan sem núna stendur yfir hefur skilað verulega miklu, sömuleiðis sérstakt átak sem hefur verið í gangi á undanförnum árum á Landspítalanum. Þar hefur til dæmis verið unnið í þremur lotum inn á stofnuninni til að bæta starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga til að gera starfið meira aðlagandi.“
Það væri að skila sér í því að í miðlægum nýjum kjarasamningum væri að verða grundvallarbreyting á vaktafyrirkomulagi – ekki einungis hjúkrunarfræðinga heldur annarra stétta. „Og er komið í raun samkomulag um þessa breytingu sem var megin áhersluatriði hjúkrunarfræðinga í þessari kjaralotu á þeim tíma sem við erum núna að tala saman. Um þetta er komið samkomulag sem mun leiða til þess að vaktavinnufólk mun þurfa að vinna færri vinnustundir í hverri viku og vaktafyrirkomulagið verður tekið upp til endurskoðunar,“ sagði Bjarni.