Smitrakningarappið Rakning C-19 var gert aðgengilegt í gær og viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa. Á miðnætti höfðu yfir fimmtíu þúsund manns hér á landi sótt appið og í hádeginu í dag höfðu 75 þúsund hlaðið appinu niður í símann sinn.
Alma Möller landlæknir þakkaði sérstaklega fyrir viðtökurnar á upplýsingafundi almannavarna í dag. „Þessar viðtökur eru framar okkar vonum.“
Benti Alma á að fjölmargir hafi komið að gerð appsins, þó að það sé á ábyrgð embættis landlæknis. Allir hafi þessir aðilar boðið fram aðstoð án endurgjalds. Þessir aðilar eru: íslensku fyrirtækin Aranja, Kolibri, Stokkur, Sensa, Samsýn, forritarar frá Íslenskri erfðagreiningu og Syndis. Þakkaði landlæknir þessum aðilum sérstaklega á fundi dagsins.
Appið er liður í viðamiklum aðgerðum yfirvalda í því að hægja á og vonandi minnka útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19.
Íslendingar munu geta sótt appið, Rakning C-19, endurgjaldslaust í App eða Play Store. Því fleiri sem sækja appið, þeim mun betur mun það gagnast smitrakningateyminu. Appið mun þó engu að síður gagnast við að aðstoða alla, sem velja að taka þátt, við að rifja upp ferðir sínar.
Notkun appsins byggir á samþykki notenda, bæði til að taka appið í notkun og til miðlunar upplýsinga síðar meir ef þess gerist þörf, en þetta er kallað tvöfalt samþykki.
Appið notar GPS staðsetningargögn og eru upplýsingar um ferðir viðkomandi eingöngu vistaðar á síma notanda. Ef notandi greinist með smit og rakningateymið þarf að rekja ferðir þá fær notandi beiðni um að miðla þeim upplýsingum til rakningateymisins.
Um leið og smitrakningateymið biður um aðgang að gögnunum mun það einnig óska eftir kennitölu viðkomandi svo ekki fari á milli mála hver er á bakvið gögnin. Þannig er tryggt að enginn hefur aðgang að þessum upplýsingum nema að notandinn vilji það. Staðsetningargögnunum verður svo eytt um leið og rakningateymið þarf ekki lengur á þeim að halda.
Sjá frekari upplýsingar hér.