Staðfest smit af kórónuveirunni eru orðin 1.417 hér á landi. Í gær voru þau 1.364 og hefur þeim því fjölgað um 53 á einum sólarhring. Í dag eru 5.275 manns í sóttkví og hefur þeim fækkað töluvert frá því í gær, er fjöldinn var um 6.300. Alls hafa 11.679 manns lokið sóttkví.
Í dag eru einstaklingar með virk COVID-19 smit 1.017 talsins, en í gær voru þeir 1.046. Þetta er í fyrsta sinn frá því að fyrsta smitið greindist hér á landi í lok febrúar sem fjöldi virkra smita lækkar á milli daga, þ.e. að fleiri batni en greinast með ný staðfest smit. Alls er 396 manns batnað.
Íslensk erfðagreining hefur aldrei greint fleiri smit á einum degi í skimunum sínum en gert var í gær, eða 20 talsins af alls 1.062 sýnum, sem þýðir að rétt innan við 2 prósent sýnanna reyndust jákvæð.
33 ný smit greindust í þeim 383 sýnum sem tekin voru á sýkla- og veirufræðideild Landspítala. Alls hafa 23.640 sýni nú verið tekin hér á landi frá upphafi faraldursins.
Nú liggja 45 sjúklingar á sjúkrahúsi vegna COVID-19 sjúkdómsins, þar af tólf á gjörgæslu, samkvæmt því sem fram kemur á vefnum covid.is.
Af þeim sem greinst hafa með COVID-19 á Íslandi eru fjögur látin.
Búast við toppi virkra smita í þessari viku
Í spálíkani vísindamanna á vef Háskóla Íslands, sem síðast var uppfært í fyrradag, kemur að á meðan faraldurinn gengur yfir er gert ráð fyrir því að rúmlega 1.800 manns á Íslandi verði greind með COVID-19 í þessari bylgju faraldursins, en talan gæti náð nær 2.500 manns samkvæmt svartsýnni spá.
Gert er ráð fyrir að fjöldi greindra einstaklinga með virkan sjúkdóm nái hámarki í fyrstu viku apríl og verði sennilega um 1.200 manns, en gæti viku seinna náð 1.700 manns samkvæmt svartsýnni spá.
Þá er gert ráð fyrir að á meðan að faraldurinn gangi yfir muni 120 manns þarfnast innlagnar á sjúkrahús, en gæti náð hátt í 180 manns.
Mesta álag á heilbrigðisþjónustu vegna sjúkrahúsinnlagna verður fyrir miðjan apríl en þá er gert ráð fyrir að um það bil 60 einstaklingar geti verið inniliggjandi á sama tíma, en svartsýnni spá er 90 einstaklingar.
Gert er ráð fyrir því að á tíma faraldursins muni um 26 einstaklingar veikjast alvarlega, þ.e. þurfa innlögn á gjörgæslu, á tímabilinu en svartsýnni spá er 40 einstaklingar.
Mesta álag á gjörgæsludeildir gæti orðið í annarri viku apríl, en þá er búist við því að 10 manns liggi þar inni á sama tíma, en samkvæmt svartsýnni spá gætu það verið 18 manns.
Smávægileg hliðrun aldursdreifingar í átt að fleiri greindum smitum meðal einstaklinga yfir sextugt myndi auka álag á heilbrigðisþjónustu talsvert.