Fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna kölluðu eftir aukinni samstöðu í stjórnmálunum, er þeir komu einn af öðrum í Silfrið á RÚV í morgun til að ræða þær aðgerðir sem kynntar hafa verið af hálfu stjórnvalda til þess að spyrna við áhrifum heimsfaraldursins.
„Það sem ríkisstjórnin er að gera er fínt en ekki nóg,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar, sem sagði deginum ljósara að kreppan vegna heimsfaraldursins væri og yrði engin venjuleg kreppa. „Við þurfum að skuldsetja ríkissjóð verulega,“ sagði Þorgerður Katrín.
Hún sagði að henni þætti gott ef „gagnkvæm hlustun“ en ekki bara eintal ætti sér stað af hálfu ríkisstjórnarinnar og bætti við að Viðreisnarfólk hefði orðið þess vart í nefndum þingsins að ekki mætti taka inn þeirra hugmyndir, til dæmis eina um að afnema tryggingagjald tímabundið á fyrirtæki með sjö starfsmenn eða færri.
Aðrir stjórnarandstöðuleiðtogar töluðu á svipuðum nótum og létu glitta í óánægju með samráðsleysi af hálfu ríkisstjórnarinnar.
Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar sagðist þannig „hissa“ á því að stjórnarandstaðan væri ekki höfð meira með í ráðum, sérstaklega í ljósi þess að hún hefði sýnt að hún skipti máli, til dæmis í þeim breytingum sem voru gerðar á hlutabótafrumvarpi félagsmálaráðherra í nefndastarfi þingsins og þegar ákvæðum var bætt við um að fyrirtækjum sem fengju lán með ríkisábyrgð yrði tímabundið óheimilt að greiða sér arð.
„Betur sjá augu en auga,“ sagði Logi að ætti við á þessum tímum.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins sagði samstarfið við ríkisstjórnina hafa verið ágætt, en að það væri byrjað að líta út fyrir að vera „bara í aðra áttina“.
Formaðurinn sagðist hafa orðið fyrir vonbrigðum með að hver ein og einasta tillaga stjórnarandstöðunnar hefði verið felld. Hann sagði að fyrst að þessi sundurleita stjórnarandstaða hefði náð saman, um „hófsama“ breytingatillögu við sérstakt fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar, væri ljóst að eitthvað væri í tillöguna spunnið.
„Þetta voru tillögur sem voru augljóslega til bóta,“ sagði Sigmundur, sem kallaði eftir því að ríkisstjórnin veiti innistæðu fyrir tali sínum um samstöðu á þessum erfiðu tímum með því að taka tillögur stjórnarandstöðunnar til greina.
Saknar róttækni
„Það sem ég sakna mest er meiri róttækni, en hennar var kannski ekki að vænta hjá frekar íhaldssamri stjórn,“ sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata, sem sagðist einnig telja að ástand dagsins í dag kalli á „ákveðna samfélagslega sjálfsskoðun og að við endurskoðum verðmætamat okkar.“
Hún benti á að fólkið sem héldi samfélaginu gangandi í dag væru heilbrigðisstarfsfólk, starfsfólk í velferðarþjónustu, kennarar, sorphirðufólk, fólk í matvælaframleiðslu og fleiri hópar.
„Við sjáum það bara að þeirra verðmæti fyrir samfélagið, þessa grundvallarfólks, það endurspeglast ekki í þeim launaseðlum sem þau fá,“ sagði Þórhildur Sunna, sem nefndi einnig að það hefði verið höfuðáhersla Pírata að reyna að stjórnvöld til að sjá mikilvægi þess að enginn félli utan þessara aðgerða og sagðist telja að stjórnvöld gerðu illt verra með því að búa til „ölmusukerfi“ sem væru flókin fyrir notendur.
„Við höfum talað fyrir borgaralaunum,“ sagði Þórhildur Sunna og benti á að sú hugmynd væri að njóta aukinnar hylli þessa dagana, jafnvel úr óvæntum áttum eins og frá leiðararahöfundum breska blaðsins Financial Times.
Tími til að endurskoða almannatryggingakerfið
Guðmundur Ingi Kristinsson þingmaður Flokks fólksins sagðist óttast að eldri borgarar og öryrkjar yrðu skildir eftir í viðbrögðum stjórnvalda. Hann sagði þá 20 þúsund króna eingreiðslu sem öryrkjar fá nú í aðgerðum stjórnvalda ekki nægilegt framlag og sagði að hann hefði kosið að greiðslurnar næmu 50 þúsund krónum bæði núna þessi mánaðamót og næstu, þar sem þessi hópur væri í þröngri stöðu.
Einnig sagði hann að þörf væri á því að hækka atvinnuleysisbætur og endurskoða almannatryggingakerfið gjörsamlega frá A til Ö. Logi Einarsson talaði með svipuðum hætti og sagði að þegar veirufaraldurinn væri farinn hjá yrðu stjórnvöld að hafa það hugfast að það þyrfti alltaf að verja veikustu hópana í samfélaginu, ekki bara fyrir heimsfaraldri heldur almennt.