„Á örskotsstundu, í raun og veru, hefur allt okkar ytra umhverfi breyst,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármála og efnahagsráðherra, á streymisfundi Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi á Facebook í dag, þar sem hann ræddi um viðbrögð ríkisstjórnarinnar við heimsfaraldrinum og svaraði spurningum þeirra sem fylgdust með fundinum.
Bjarni vék sérstaklega að því, í ávarpi sínu á fundinum, að þegar verið væri að bera saman stærðargráðu efnahagsviðbragðanna hér á landi við önnur ríki, þyrfti að horfa til þess að Ísland hefði öflugri sveiflujafnara í félagslegu kerfunum en mörg önnur ríki.
Stjórnarandstaðan hefur ítrekað sagt að meira þurfi að koma til í beinum fjárútlátum úr ríkissjóði til þess að mæta afleiðingum faraldursins. Það gerði til dæmis Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag, þar sem hún sagði efnahagslega höggið vera án allra fordæma og aðgerðir stjórnvalda þyrftu að vera í samræmi við það.
„Því miður gefa fyrstu viðbrögð stjórnvalda ekki til kynna að sú verði raunin. Ríkisstjórnin kynnti á dögunum aðgerðir upp á 230 milljarða króna. Þótt ríkisstjórnin kysi að kalla þetta umfangsmestu efnahagsaðgerðir sögunnar blasir við að þær eru t.d. mun minni að umfangi en efnahagsaðgerðir stjórnvalda eftir hrun. Íslensk stjórnvöld eru líka aðeins hálfdrættingar á við nágrannalönd okkar þegar kemur að fyrstu aðgerðum,“ skrifaði Þorgerður Katrín, en hið sama var dregið fram í úttekt sem birtist á vef Stundarinnar í gær.
Bjarna virtist í mun um að svara þessari gagnrýni á rafrænum fundi sínum með flokksmönnum og öðrum áhorfendum, sem hófst kl. 12 á hádegi, og sagði að á Íslandi væru félagslegu kerfin þannig uppbyggð að þau stæðu sterk þrátt fyrir „svona ágjöf“ eins og við upplifum nú.
„Með þessu er ég að benda á að þegar menn eru að reyna að leggja mælistiku á umfang aðgerða ríkisstjórnarinnar verður auðvitað ekki horft framhjá því að við leyfum tekjufallinu bara að eiga sér stað, við tökum á okkur hallann og hann verður verulegur og það þarf beinlínis að breyta lögum og gera miklar ráðstafanir til að það verði eitthvað öðruvísi,“ sagði fjármálaráðherra.
„Næstu aðgerðir“ þurfi að taka til nýsköpunarfyrirtækja
Fjármálaráðherra ræddi aðeins um frekari aðgerðir sem ríkisstjórnin væri að velta fyrir sér að grípa til í því skyni að bregðast við stöðunni í efnahagsmálum. Hann sagði stöðu einyrkja á borð við hárgreiðslufólks vera áhyggjuefni og einnig sagðist hann telja að í næstu aðgerðum ríkisstjórnarinnar þyrfti sérstaklega að huga að því að hjálpa fyrirtækjum sem fást við rannsóknir og nýsköpun.
„Slík fyrirtæki eru ekki undanskilin því að finna fyrir áhrifunum af því sem er að gerast og ég held að í næstu aðgerðum okkar verðum við að horfa þess vegna sérstaklega til þeirra. Ég held að við höfum saman gríðarlega mikla hagsmuni af því að það mikilvæga starf sem fer fram á landinu í alls konar frumkvöðlastarfsemi, það haldi áfram og haldi ekki bara áfram heldur jafnvel fái aukinn kraft, við þessar aðstæður,“ sagði Bjarni.
Streymisfundur XD í Kraganum: Bjarni BenediktssonBjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra verður í beinni útsendingu á Facebook-síðunni ,,Sjálfstæðisflokkurinn í Suðvesturkjördæmi" miðvikudaginn 8.apríl kl. 12:00 og fer yfir stöðu mála. Við hvetjum ykkur til að fylgjast með og senda inn spurningar á meðan að á streyminu stendur.
Posted by Sjálfstæðisflokkurinn í Suðvesturkjördæmi on Wednesday, April 8, 2020